Stuttur kafli varð liðinu að falli

Rakel Dögg Bragadóttir, Stjörnunni.
Rakel Dögg Bragadóttir, Stjörnunni. mbl.is/Árni Sæberg

„Á stuttum kafla í síðari hálfleik gerðum við nokkur mistök í sóknarleiknum sem varð þess valdandi að Framarar fengu hraðaupphlaup og náðu forskoti. Það má gæta sín vel í leikjum við Fram að gera sem fæst mistök í sóknarleiknum vegna þess að Fram-liðið refsar miskunnarlaust í staðinn með hraðaupphlaupum,“ sagði Rakel Dögg Bragadóttir, einn leikmanna Stjörnunnar og annar þjálfari liðsins, í samtali við mbl.is eftir þriggja marka tap Stjörnunnar, 28:25, fyrir Fram í fimmtu umferð Olís-deildar kvenna í handknattleik í Safamýri í dag. Þetta var fyrsta tap Stjörnunnar í deildinni á þessu keppnistímabili.

Rakel Dögg sagði að á heildina litið hafi sóknarleikur Stjörnuliðsins verið góður. Lagt hafi verið upp með að leika langar sóknir. Það væri nauðsynlegt gegn Fram-liðinu sem vilji halda uppi miklum hraða í leikjum sínum.  „Vörn Fram er þar á ofan gríðarlega öflug með góðan markvörð til viðbótar. Þess vegna verður að leika mjög agað gegn Fram-liðinu og mér fannst við gera það mjög vel en því miður kom slæmur kafli. Hann var of langur og það er of dýrt gegn Fram,“ sagði Rakel Dögg.

Stjarnan hefur keppni í Olís-deildinni mun betur en fyrir ári. Nú hefur liðið unnið fjórar af fyrstu fimm viðureignum sínum ólíkt í fyrra þegar það átti erfitt uppdráttar eftir talsverðar mannabreytingar sumarið 2018 í viðbót við nýtt þjálfarateymi.  Rakel Dögg segir að kjarni liðsins hafi lítið breyst frá síðasta keppnistímabili þótt nokkrar breytingar hafi átt sér stað á leikmannahópnum í heild. 

„Byrjunin er fín hjá okkur og mikill stígandi í liðinu að mínu mati, ekki síst síðasta mánuðinn. Okkur tekst sífellt betur að stilla saman strengina en vissulega vantaði aðeins upp á það á köflum í dag. Næsti leikur verður við topplið Vals um næstu helgi. En upphafskaflinn hefur verið góður með fjórum sigurleikjum í röð. Þar náðum við í afar mikilvæg stig sem hjálpa okkur við að stíga næstu skref,“ sagði Rakel Dögg Bragadóttir, annar þjálfari kvennaliðs Stjörnunnar í handknattleik.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert