Íslendingar með tvö af bestu mörkunum (myndskeið)

Aron Pálmarsson gefur ungum stuðningsmanni fimmu.
Aron Pálmarsson gefur ungum stuðningsmanni fimmu. Ljósmynd/@FCBhandbol

Sirkusmark Arons Pálmarssonar og brellumark Óðins Þórs Ríkharðssonar voru á meðal fimm bestu markanna sem skoruð voru í Meistaradeild Evrópu í handbolta í síðustu umferð.

Aron skoraði sitt mark í góðum útisigri Barcelona á Flensburg í A-riðli keppninnar, en hann skoraði alls fimm mörk í leiknum og gaf fimm stoðsendingar. Barcelona er efst í riðlinum en jafnt PSG að stigum.

Óðinn skoraði alls fjögur mörk þegar GOG heimsótti Kadetten til Sviss en heimamenn unnu hins vegar 40:28-sigur, þar sem Ungverjinn gamli Gábor Császár skoraði 16 mörk. Ísland mætir einmitt Ungverjalandi á EM í janúar. Þrátt fyrir tapið er GOG í 2. sæti D-riðils með 8 stig, tveimur stigum meira en Kadetten og tveimur á eftir toppliði Dinamo Búkarest.

Fimm fallegustu mörkin úr síðustu umferð má sjá hér að neðan.

mbl.is