Ekkert hoppandi kátir með fimmta sætið

Ásbjörn Friðriksson var atkvæðamikill í liði FH-inga í kvöld og …
Ásbjörn Friðriksson var atkvæðamikill í liði FH-inga í kvöld og skoraði tíu mörk. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Ég er svekktur að ná ekki að kreista fram sigur í dag en þeir voru einfaldlega sterkari,“ sagði Ásbjörn Friðriksson, leikmaður FH, í samtali við mbl.is eftir 29:28-tap liðsins gegn Val í úrvalsdeild karla í handknattleik, Olísdeildinni, í Origo-höllinni á Hlíðarenda í þrettándu umferð deildarinnar í kvöld.

„Við missum Ágúst Birgisson út af í fyrri hálfleik og við það riðlast aðeins leikur okkar. Við missum aðeins dampinn og vörnin fer að leka. Við náum aðeins að stoppa lekann í seinni hálfleik en samt sem áður vantaði alltaf herslumuninn hjá okkur í leiknum. Við náum að minnka muninn nokkrum sinnum og jafna í tvígang en það vantaði alltaf aðeins upp á hjá okkur.“

FH-ingar náðu fjögurra marka forskoti um miðbik fyrri hálfleiks en eftir það tóku Valsmenn öll völd á vellinum og leiddu það sem eftir lifði leiks.

„Við vorum að elta í einhverjar fjörutíu mínútur af leiknum og það er erfitt. Eftir á að hyggja hefði það hjálpað okkur að ná frumkvæðinu í leiknum og komast yfir á ákveðnum tímapunkti en það gekk ekki eftir. Við erum búnir að vera að spila fínt í síðustu leikjum og það er ágætis taktur í þessu hjá okkur. Við töpum í kvöld á útivelli gegn sterku liði þrátt fyrir að spila ágætis leik á köflum.“

FH-ingar eru í fimmta sæti deildarinnar eftir fyrstu þrettán umferðir tímabilsins en heilt yfir er Ásbjörn nokkuð sáttur með spilamennskuna hingað til á tímabilinu.

„Stígandi í þessu hefur verið fín. Við byrjuðum ekkert sérstaklega vel enda erfitt leikjaprógramm en mér finnst við hafa spilað mjög vel í undanförnum leikjum. Deildin er jöfn og lið mega ekki misstíga sig mikið. Það er stutt upp og stutt niður í þessu en ég get líka sagt að við séum ekki hoppandi kátir með það að vera í fimmta sæti eftir fyrstu þrettán umferðirnar,“ sagði Ásbjörn í samtali við mbl.is.

mbl.is