Norðmenn hefja milliriðil Íslands með tvö stig

Noregur og Portúgal mæta Íslandi í millriðli.
Noregur og Portúgal mæta Íslandi í millriðli. AFP

Noregur tryggði sér í dag toppsæti D-riðils á EM karla í handbolta með 34:28-sigri á Portúgal í Þrándheimi. Norðmenn taka tvö stig með sér í milliriðil II, en Íslendingar hafa þegar tryggt sér sæti í sama milliriðli. 

Staðan í hálfleik var 16:14, Norðmönnum í vil, og þeir voru sterkari aðilinn í seinni hálfleik og voru Portúgalar aldrei líklegir til að jafna. Portúgal hafði þegar tryggt sér sæti í milliriðli II en fer þangað stigalaust. 

Magnus Jøndal var markahæstur Norðmanna með sjö mörk og þá var Torbjørn Bergerud sterkur í markinu með 13 skot varin eða 34%. Antonio Areia skoraði mest hjá Portúgal eða fjögur mörk.

Lærisveinar Kristjáns Andréssonar hjá Svíum eru einnig komnir í milliriðil II en þeir fara þangað stigalausir. Sænska liðið vann 28:26-sigur á Póllandi í F-riðli í Gautaborg og tryggði sér annað sæti riðilsins á eftir Slóveníu.

Daniel Pettersson, Jim Gottfridsson, Andreas Nilsson og Kim Ekdahl skoruðu allir fimm mörk fyrir Svíþjóð á meðan Szymon Sicko skoraði átta fyrir Pólland sem er úr leik.

Þá tryggðu Tékkar sér síðasta sætið í milliriðli I með 23:19-sigri á Úkraínumönnum í Vín. Tomas Babak skoraði sex mörk fyrir Tékkland og Artem Kozakevych skoraði fjögur fyrir Úkraínu. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert