Svíar keyrðu yfir Ungverja í lokin

Jim Gottfridsson átti góðan leik fyrir Svíþjóð.
Jim Gottfridsson átti góðan leik fyrir Svíþjóð. AFP

Svíþjóð vann sinn fyrsta sigur í millriðli II á EM karla í handbolta í Malmö í kvöld. Lærisveinar Kristján Andréssonar höfðu þá betur gegn Ungverjalandi, 24:18. Svíþjóð skoraði sex síðustu mörkin. Sigurinn þýðir að Noregur er kominn áfram í undanúrslit. 

Leikurinn var jafn og spennandi framan af og var staðan í hálfleik 10:9, Svíþjóð í vil. Jafnræðið hélt áfram í seinni hálfleik og var staðan 18:18 þegar skammt var eftir. Þá tóku Svíar við sér og sex marka sigur varð raunin. 

Jim Gottfridson og Lucas Pellas skoruðu sex mörk hvor fyrir Svíþjóð og Zoltán Szita skoraði fjögur fyrir Ungverjaland. 

Þrátt fyrir tapið eru Ungverjar í þriðja sæti riðilsins með sex stig. Svíar, Portúgalar og Íslendingar eru allir með tvö stig. Ísland og Svíþjóð mætast annað kvöld klukkan 19:30. 

mbl.is