Dagur magnaður annan leikinn í röð

Ásgeir Örn Hallgrímsson kemur engum vörnum við er Dagur Arnarsson …
Ásgeir Örn Hallgrímsson kemur engum vörnum við er Dagur Arnarsson skýtur á Grétar Ara Guðjónsson, markvörð Hauka. mbl.is/Kristinn Magnússon

Dagur Arnarsson, leikmaður ÍBV, átti annan magnaða leikinn í röð þegar hann skoraði 10 mörk gegn Haukum, í Olísdeild karla í dag. Eyjamenn unnu átta marka sigur sem var í raun aldrei í hættu eftir frábæran kafla Eyjamanna undir lok fyrri hálfleiks.

Dagur er oft potturinn og pannan í sóknarleik Eyjamanna en hann var einnig frábær í sigri Eyjamanna á Aftureldingu í síðustu umferð.

„Ég ekki sagt að ég hafi búist við svona stórum sigri, mér finnst þetta vera tvö frábær lið, þeir eru auðvitað í efsta sæti svo ég bjóst alls ekki við svona stórum sigri,“ sagði Dagur aðspurður hvort hann hefði búist við svo stórum sigri.

„Við vorum frábærir varnarlega og skoruðum á þá 36 mörk sem er alveg frábært. Við höfum verið að vinna í okkar hlutum og einbeitt okkur aðallega að okkur sjálfum,“ sagði Dagur en hann segir að liðið hafi lagt leikinn svipað upp eins og alla síðustu leiki, en Eyjamenn hafa nú unnið þrjá leiki í röð.

Verður gaman að mæta þeim í Laugardalshöllinni

Eyjamenn hafa verið að endurheimta leikmenn úr meiðslum, Grétar Þór Eyþórsson og Theodór Sigurbjörnsson eru komnir aftur inn í hópinn og styrkja hann verulega.

„Algjörlega, æfingarnar verða líka betri fyrir vikið og vonandi getum við gert frábæra hluti í vor.“

ÍBV hefur mætt Haukum mjög oft á síðustu árum og það er mikill rígur á milli liðanna.

„Það er alltaf gaman að mæta Haukum og ég held að þeim finnist líka gaman að mæta okkur, þetta fór svona í dag og við förum glaðir frá borði. Hérna heima erum við með tak á þeim, en næst mætum við þeim í Laugardalshöll, það verður gaman að sjá hvað gerist þar,“ sagði Dagur en Eyjamenn hafa mætt Haukum í þeirri höll tvisvar á síðustu 5 árum, unnið í bæði skiptin og orðið bikarmeistarar í bæði skiptin. Býst Dagur við því að það gerist aftur?

„Ég get ekki sagt að ég búist við því, en það er klárlega stefnan, en til þess að það gerist þurfum við að spila hörkuleik.“

Veit ekki hvað hann gerði í jólafríinu

Dagur segir andann í hópnum vera eitt af sterkustu vopnum liðsins.

„Það sem einkennir þetta lið er alltaf góður andi, það er frábær stemning í hópnum og það er sama á hverju bjátar. Stemningin er góð og við ætlum að halda áfram á sömu braut,“ sagði Dagur en hann var einnig ánægður með stuðninginn.

„Stuðningurinn var mjög góður og það er frábært að búa við þetta samfélag sem mætir og styður okkur sama hvað gengur á, það er geggjað að sjá stúkuna.“

Dagur hefur einnig verið ánægður með Petar Jokanovic upp á síðkastið en hann hefur spilað vel eftir áramót.

„Ég veit ekkert hvað hann gerði í jólafríinu, en hann fór heim til Bosníu og það hefur greinilega virkað. Hann hefur komið frábær til baka og heldur vonandi áfram sínu striki.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert