Vill blása handboltatímabilið af

Haukar eru sem stendur í fjórða sæti úrvalsdeildarinnar þegar tvær …
Haukar eru sem stendur í fjórða sæti úrvalsdeildarinnar þegar tvær umferðir eru eftir af deildarkeppninni. Ljósmynd/Sigurður Ragnarsson

Þorgeir Haraldsson, formaður handknattleiksdeildar Hauka, skilur ekki af hverju HSÍ er ekki enn búið að aflýsa Íslandsmótinu vegna kórónuveirufaraldsins. Allt íþróttalíf liggur nú niðri í landinu vegna veirunnar en félögin geta ekki einu sinni æft vegna samkomubanns heilbrigðisráðherra sem verður að öllum líkindum framlengt fram í byrjun maí.

Við erum nú í stöðu sem við höfum ekki upplifað áður og þá breytist margt eins og við öll finnum fyrir,“ segir Þorgeir í pistli á handknattleikssíðu Hauka. „Þessa dagana ættum við að vera að hefja úrslitakeppni ef allt væri eðlilegt, en ástandið er alls ekki eðlilegt og verður það væntanlega ekki í bráð.

Við erum í „íþróttafangelsi“ eins og segir í grein sem Gunnar Valgeirsson prófessor við California State University ritaði í Morgunblaðið 26. mars sl. og mæli ég með því að þið lesið hana. En við erum öll í sömu stöðu og er aðalatriðið fyrir okkur öll núna að allir passi sig og sína og við komum eins heil út úr þessu ástandi og mögulegt er.

Það er mín skoðun að HSÍ ætti að vera löngu búið að aflýsa öllum mótum í handbolta þennan veturinn og hef ég lýst þeirri skoðun minni margoft við framkvæmdastjóra HSÍ. Vonast ég til að það komi yfirlýsing þaðan nú um mánaðamótin í síðasta lagi. Við skulum ekki gera ráð fyrir neinni starfsemi hjá okkur í handboltanum næstu vikurnar og geri ég ekki ráð fyrir öðru en að yfirstandandi mót verði blásið af svo við getum farið að skipuleggja starfið og undirbúið liðin okkar fyrir næstu leiktíð,“ segir Þorgeir meðal annars.



mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert