Hefur legið í loftinu lengi

Aron Kristjánsson
Aron Kristjánsson mbl.is/Hari

„Þetta hefur svo sem legið í loftinu lengi, þannig séð,“ sagði Aron Kristjánsson handboltaþjálfari í samtali við mbl.is í kvöld en nú er endanlega ljóst að hann mun ekki vera áfram landsliðsþjálfari karla hjá Asíuríkinu Barein.

Aron hef­ur verið ráðinn þjálf­ari karlaliðs Hauka frá og með næsta tímabili en til stóð að hann myndi fyrst stýra Barein á Ólympíuleikunum í Tókýó í Japan í sumar. Leikunum var hins vegar frestað til næsta árs vegna kórónuveirufaraldursins sem herjað hefur á heimsbyggðina undanfarna mánuði.

„Þegar ég samdi við Haukana þá vildu þeir hafa mig fram yfir Ólympíuleikana sem áttu að vera í sumar. Svo var þeim frestað til næsta árs og þá er þetta orðið svolítið öðruvísi prógram, svo eru Persaflóaleikarnir í desember,“ sagði Aron og bætti við að það væri ómögulegt fyrir hann að sinna báðum verkefnum af heilum hug í vetur.

„Nei, ekki miðað við þá áætlun sem menn ætluðu að vinna eftir. Það hefði þurft að ráða aðstoðarþjálfara til að vera í Barein og ég hefði þurft að sleppa mörgum leikjum með Haukum og það var aldrei í boði, ég ræddi það ekkert við þá.

Svo vilja þeir í Barein að landsliðsþjálfarinn sé staðsettur þar og höfðu verið að ræða það við mig, að ég væri meira í Barein. Það þarf að vinna með þessa næstu kynslóð sem er að koma þar upp og gera þá tilbúna til að taka við þessari gullaldarkynslóð sem er þarna núna.“

Það er auðvitað svekkjandi að missa af Ólympíuleikunum en lítið við því að gera. „Ég ber bara virðingu fyrir þeirra óskum og það var ákvörðun hjá mér að taka við Haukunum á sínum tíma og svo kemur þetta ófyrirsjáanlega ástand, kórónuveiran fer á kreik og Ólympíuleikarnir færast. Svona er þetta.“

mbl.is