Sjö íslensk mörk í sigri stórliðsins

Sigvaldi Björn Guðjónsson og Haukur Þrastarson eru að gera fína …
Sigvaldi Björn Guðjónsson og Haukur Þrastarson eru að gera fína hluti. Ljósmynd/Einar Ragnar Haraldsson

Íslendingaliðið Vive Kielce fer vel af stað í pólsku úrvalsdeildinni í handbolta og vann liðið góðan 31:24-sigur á Górnik Zabrze á útivelli í 3. umferðinni í dag. Kielce er með fullt hús stiga. 

Sigvaldi Björn Guðjónsson skoraði fimm mörk fyrir Kielce og Haukur Þrastarson gerði tvö mörk. Er Haukur kominn af stað með Kielce eftir meiðsli. Komu þeir báðir til félagsins fyrir leiktíðina; Haukur frá Selfossi og Sigvaldi Elverum í Noregi. 

Haukur er kominn heldur fyrr af stað en reiknað var með í byrjun. Hann meiddist rétt eftir komuna til pólska félagsins í sumar og horfur voru á að hann yrði ekki með í fyrstu leikjum tímabilsins.

Kielce er í toppsætinu með níu stig, eins og Azoty Pulawy sem Selfoss mætti í Evrópukeppi á síðustu leiktíð. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert