Norðmenn gefa gestgjafahlutverkið frá sér

Þórir Hergeirsson.
Þórir Hergeirsson. AFP

Norska handknattleikssambandið tilkynnti í morgun að Noregur muni ekki halda lokakeppni EM kvenna í handknattleik ásamt Dönum eins og til stóð. Mótið fer fram í desember. 

Rúmur helmingur leikjanna átti að vera í Noregi og þar átti úrslitaleikurinn að fara fram en EM var einnig haldið í þessum löndum fyrir tíu árum og þá var úrslitaleikurinn í Danmörku. 

Sóttvarnareglurnar eru strangar í Noregi og ekki er útlit fyrir að Handknattleikssamband Evrópu og handknattleikssambandið í Noregi fái undanþágur til að liðka fyrir mótshaldinu.  

Ekki liggur fyrir hvernig mótshaldinu verður fyrir komið fyrst þessi staða er komin upp. 

Þórir Hergeirsson er landsliðsþjálfari Noregs en norska liðið ætlar sér stóra hluti á mótinu eins og alla jafna. 

mbl.is