Grafarvogsliðin með styrktarleik fyrir Píeta-samtökin

Fjölnir og Vængir Júpíters vonast eftir góðum stuðningi annað kvöld.
Fjölnir og Vængir Júpíters vonast eftir góðum stuðningi annað kvöld. mbl.is/Hari

Grafarvogsliðin Vængir Júpíters og Fjölnir mætast í 1. deild karla í handknattleik í Dalhúsum annað kvöld, þriðjudagskvöld, klukkan 20 og hafa gert leikinn að styrktarleik fyrir Píeta-samtökin.

Ástæða þess er sú að leikmaður sem tengist báðum liðum missti nýverið nákominn aðstandanda, að því er fram kemur í fréttatilkynningu frá Fjölni.

Leikmenn, þjálfarar og stjórnarmenn munu leggja málefninu lið með þvi að styrkja sem um nemur einum aðgangsmiða á leik eða 1.500 kr. Þá munu Vængir Júpíters leggja söfnuninni lið með 50.000 kr. framlagi.

Þá skora félögin á fyrirtæki og einstaklinga að styrkja Píeta-samtökin með frjálsum framlögum á styrktarreikning Vængja Júpíters og Fjölnis, 0133-15-200680, kt. 631288-7589. Þá er hægt að kaupa miða á leikinn í gegnum Aur app í síma 664-5206 eða með því að hafa samband í tölvupósti á vaengirjupiters.handbolti@gmail.com

Leikurinn verður án áhorfenda, eins og aðrir leikir um þessar mundir, en hann verður sýndur í beinni útsendingu á Vængir Júpíters TV.

Leikmenn og starfsmenn beggja liða munu heiðra minningu allra sem fallið hafa fyrir eigin hendi með sorgarböndum og einnar mínútu þögn fyrir leik.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert