Kristján ráðinn til Eskilstuna Guif

Kristján Andrésson stjórnaði sænska landsliðinu á heimsmeistaramótinu árið 2019.
Kristján Andrésson stjórnaði sænska landsliðinu á heimsmeistaramótinu árið 2019. AFP

Kristján Andrésson, fyrrverandi landsliðsmaður Íslands í handknattleik og síðan þjálfari sænska karlalandsliðsins og þýska stórliðsins Rhein-Neckar Löwen, er kominn til starfa á ný hjá sínu gamla félagi í Svíþjóð.

Eskilstuna Guif tilkynnti í dag að Kristján hefði verið ráðinn íþróttastjóri félagsins en hann var í röðum þess sem leikmaður frá 18 ára aldri og þar til hann hætti að spila vegna alvarlegra meiðsla árið 2006. Þá tók hann við sem þjálfari liðsins og stjórnaði því með góðum árangri í níu ár.

Hann var síðan landsliðsþjálfari Svía frá 2016 til 2020 og þjálfari Rhein-Neckar Löwen 2019 til 2020.

Þar með verður ekkert af því að Kristján taki við sem þjálfari Ólafs Guðmundssonar, Teits Arnar Einarssonar og samherja þeirra í Kristianstad, en Kristján hafði verið orðaður við þjálfarastöðuna hjá félaginu.

Kristján mun starfa náið með þjálfurum karla- og kvennaliða Eskilstuna Guif og vinna að markmiðssetningum, uppbyggingu þjálfunar, skipulagi félagsins og tengja saman yngri flokka og meistaraflokka félagsins.

Karlalið Eskilstuna Guif er í 10. sæti af 15 liðum í úrvalsdeildinni en kvennaliðið er í 9. sæti af 12 liðum í B-deildinni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert