FH-ingar unnu með frábærum seinni hálfleik

Theodór Sigurbjörnsson og félagar fá FH í heimsókn í dag.
Theodór Sigurbjörnsson og félagar fá FH í heimsókn í dag. mbl.is/Kristinn Magnússon

FH-ingar unnu öflugan þriggja marka sigur 30:33 á Eyjamönnum þegar liðin mættust í hörkuleik í Vestmannaeyjum í dag. Gestirnir spiluðu virkilega vel í seinni hálfleik og skoruðu þar 19 mörk á móti 14 mörkum heimamanna.

Sú ákvörðun FH-inga að koma með Herjólfi í gær og verja nótt í Vestmannaeyjum var góð og skilaði mögulega einhverju í leiknum í dag. Egill Magnússon skoraði mikilvæg mörk í leiknum og einnig markið sem að lokum innsiglaði sigur gestanna.

Eyjamenn byrjuðu leikinn af miklum krafti og mun betur en gestirnir, hraðinn var mikill og gerðu heimamenn mikið af auðveldum mörkum eftir tapaða bolta gestanna. Mestur varð munurinn í fyrri hálfleik fimm mörk þegar Hákon Daði Styrmisson gerði eitt af sínum níu mörkum.

Gestirnir hófu seinni hálfleik af miklum krafti og voru í allt öðrum gír heldur en í upphafi leiks, þeir voru ekki lengi að koma sér fjórum mörkum yfir þegar Egill Magnússon skoraði með föstu skoti.

Ásbjörn Friðriksson fór af velli hjá FH-ingum í hálfleik og lék ekki meir, þótt það virðist skrýtið þá léku FH-ingar mun betri sóknarleik án hans. Einar Örn Sindrason stýrði sóknum liðsins í seinni hálfleik virkilega vel og skoraði sjálfur tvö mörk.

Margir héldu að leik væri lokið þegar FH-ingar komust í fjögurra marka forskot í annað skiptið, en þá hófst ótrúlegur kafli Eyjamanna. Björn Viðar Björnsson kom inn í markið og bræðurnir Hákon Daði og Ívar Logi Styrmissynir gerðu mjög vel í sókninni. Tvö mörk Dags Arnarssonar í röð komu Eyjamönnum síðan yfir þegar rétt rúmar fimm mínútur voru eftir.

Eyjamenn komust í annað skiptið yfir þegar Hákon Daði skoraði sitt níunda mark og staðan þá orðin 29:28, þá fór allt í baklás hjá Eyjamönnum sem lentu undir og náðu ekki að laga stöðuna áður en leiknum lauk. Phil Döhler var frábær á köflum í leiknum og varði alls fimmtán skot, mörg hver úr dauðafærum.

FH-ingar eru komnir í efsta sætið tímabundið í það minnsta en Eyjamenn sleikja sárin í sjötta sætinu.

Lýsing uppfærist sjálfkrafa

Allar lýsingar í beinni

ÍBV 30:33 FH opna loka
60. mín. Dagur Arnarsson (ÍBV) skoraði mark 50 sekúndur eftir.
mbl.is