Óvíst hvort leikur Íslands fari fram

Aron Pálmarsson er kominn aftur í landsliðshóp Íslands.
Aron Pálmarsson er kominn aftur í landsliðshóp Íslands. Ljósmynd/Einar Ragnar Haraldsson

Landsleikur Íslands og Ísraels í undankeppni EM karla 2022 í handknattleik sem á að fara fram í Tel Aviv á fimmtudaginn er í uppnámi vegna ferðatakmarkana sökum kórónuveirufaraldursins.

Íslenska landsliðið á að mæta til leiks á fimmtudaginn í 4. riðli undankeppninnar og mæta Ísrael en liðin áttu upprunalega að spila í nóvember á síðasta ári. Í tilkynningu á heimasíðu ísraelska handknattleikssambandsins segir hins vegar að óvissa ríki um hvort leikurinn geti farið fram.

Nú þegar er búið að fresta leik Ísraels og Litháens sem átti að fara fram á morgun vegna vandræða með samgöngur. Ekki má ferðast frá hvaða landi sem er til Ísraels vegna sóttvarnaaðgerða þar í landi. Segir í tilkynningu sambandsins að búið sé að fresta fluginu sem íslenski hópurinn átti að ferðast með.

Segir enn fremur að Handknattleikssamband Íslands leiti allra ráða til að koma hópnum til Tel Aviv fyrir fimmtudaginn en ekki náðist í HSÍ við vinnslu fréttarinnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert