Ómar stórkostlegur í Íslendingaslag

Ómar Ingi Magnússon var óstöðvandi.
Ómar Ingi Magnússon var óstöðvandi. AFP

Ómar Ingi Magnússon átti enn og aftur stórgóðan leik fyrir þýska liðið Magdeburg er liðið gerði góða ferð til Svíþjóðar og vann 34:28-sigur á Kristianstad í fyrri leik liðanna í átta liða úrslitum Evrópudeildarinnar í handbolta.

Ómar Ingi skoraði tólf mörk og lagði upp fimm til viðbótar. Michael Damgaard og Daniel Pettersson komu þar á eftir með fimm mörk hvor. Gísli Þorgeir Kristjánsson lék ekki með Magdeburg vegna meiðsla.

Teitur Örn Einarsson skoraði tvö mörk fyrir Kristianstad og Ólafur Andrés Guðmundsson gerði eitt mark.

Viktor Gísli Hallgrímsson átti góðan leik fyrir GOG frá Danmörku sem hafði betur gegn Wisla Plock frá Póllandi á heimavelli, 30:27. Viktor varði 13 skot, þar af tvö víti, og var með 33 prósenta markvörslu.

Ýmir Örn Gíslason komst ekki á blað hjá þýska liðinu Rhein-Neckar Löwen í 32:33-tapi á útivelli fyrir Chekhovskiye Medvedi frá Rússlandi.

Seinni leikir einvígjanna fara fram á þriðjudag eftir viku.

Viktor Gísli Hallgrímsson stóð vaktina vel í markinu.
Viktor Gísli Hallgrímsson stóð vaktina vel í markinu. AFP
mbl.is