„Ég veit ekki hvað við héldum“

Bjarki Már í leiknum í dag.
Bjarki Már í leiknum í dag. Ljósmynd/HSÍ

Bjarki Már Elísson, hornamaðurinn marksækni, sagði íslensku landsliðsmennina í handknattleik hafa litið út eins og óreynda leikmenn í tapleiknum gegn Litháen í Vilnius í undankeppni EM í dag. 

„Við getum sjálfum okkur um kennt varðandi hvernig við mættum til leiks. Ég veit svo sem ekki hvað við héldum en kannski héldum við að við gætum bara labbað yfir þá af því við unnum fyrri leikinn gegn þeim [með sextán marka mun]. Við eigum að vera miklu klókari og mæta klárir í slaginn en ekki láta þá veiða okkur í einhverja vitleysu. Við eigum ekki að láta þá fiska okkur út af i tvær mínútur með einhverjum leikrænum tilburðum. Við litum út eins og við værum óreyndir í dag,“ sagði Bjarki en hann segist ekki hafa orðið var við annað en að menn væru rétt stilltir í aðdraganda leiksins. 

„Við vorum að spila í fyrradag og það verkefni var fínt. Þá tók við ferðalag til Litháen og taka svo sem ekki á því á fullu á æfingunni á milli þessara leikja. Mér fannst undirbúningurinn fínn og þetta liggur hjá hverjum og einum leikmanni að mæta tilbúinn í leikinn og sýna það. Kannski þurfum við að fara eitthvað yfir það en það er svekkjandi að þurfa að komast að því með þessum hætti en þannig var það í dag.“

Ísland er með betri árangur gegn Portúgal innbyrðis. Ísland þurfti því að vinna Litháen í dag og Ísrael heima á sunnudaginn til að ná efsta sætinu í riðlinum. Ísland er komið á EM því liðið getur ekki hafnað neðar en í 2. sæti í riðlinum en landsliðsmönnunum svíður væntanlega að missa af efsta sætinu sem skiptir máli varðandi styrkleikalista og niðurröðun.

„Okkur langaði að vinna þennan riðil. Það var ekki flóknara en það. Við áttum að gera það úr því sem komið var. Eftir að hafa náð betri stöðu innbyrðis gegn Portúgal sem er á meðal átta bestu landsliða í heiminum í dag. Við klúðruðum þessu sjálfir og það sýnir kannski að við séum komnir styttra en við höldum,“ sagði Bjarki Már Elísson í samtali við mbl.is 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert