Kannski einhver skrekkur vegna fyrsta skiptisins

Patrekur Jóhannesson, þjálfari Stjörnunnar.
Patrekur Jóhannesson, þjálfari Stjörnunnar. Ljósmynd/Þórir Tryggvason

Patrekur Jóhannesson, þjálfari Stjörnunnar, segir ærið verkefni bíða liðsins eftir að það tapaði 23:28 fyrir Haukum í TM-höllinni í Garðabæ í fyrri leik liðanna í undanúrslitum Íslandsmótsins í handknattleik karla í kvöld.

Stjarnan byrjaði leikinn vel og komst í 4:1 forystu, áður en deildarmeistarar Hauka tóku leikinn yfir og leiddu með sjö mörkum, 8:15, í hálfleik.

„Mér fannst við koma vel inn í leikinn. Það var mikil orka og gleði en Haukarnir eru bara vél, það truflar þá ekki neitt. Við vorum svolitlir klaufar þá og Haukarnir þéttir. Björgvin [Páll Gústavsson] fór svo að verja víti og dauðafæri og þá kemur svolítið panikk í mitt lið,“ sagði Patrekur í samtali við mbl.is að leik loknum.

„Menn fara svolítið að efast um sjálfa sig en síðan í hálfleik settumst við niður og ræddum saman lengi, þetta var örugglega lengsta hálfleiksræða mín en hún var bara á rólegu nótunum. Mér fannst strákarnir líka eiga það skilið að alla vega líða betur á vellinum. Hvort við myndum vinna eða tapa, það kæmi bara í ljós.

Mér fannst orkan í seinni hálfleik allt önnur en við vorum náttúrlega að spila á móti frábæru liði sem er liggur við með 20 leikmenn sem gætu spilað í hvaða liði sem er. Breiddin þeirra er rosaleg og Aron gerir vel í að nota þá alla. En þetta var kaflaskipt í kvöld,“ bætti hann við.

Í fyrsta sinn í undanúrslitum

Síðari leikur liðanna fer fram næsta föstudagskvöld á Ásvöllum, þar sem Haukar hafa verið næsta óstöðvandi á tímabilinu. Stjarnan tapaði með einu marki þar í deildinni í hörkuleik.

„Já já, en deildin er bara allt annað dæmi en úrslitakeppnin. Núna erum við komnir hingað, við erum í fjórum bestu og mér líst bara vel á leikinn. Mér fannst líka frábært að sjá fólkið okkar í kvöld, það var rosa góð stemning og mæting í TM-höllina og vonandi kemur fólk líka á Ásvelli, það er ágætishús þar líka.

Haukarnir eru gríðarsterkir, ég er enginn sérfræðingur að segja það og við vitum að þeir koma alltaf á sínum hraða. Ég fer í öll verkefni til þess að vinna og ætla að undirbúa og hjálpa strákunum að finna lausnir.

Við erum í fyrsta skipti, Stjarnan, í þessari stöðu, höfum aldrei verið í undanúrslitunum áður svo það var kannski einhver skrekkur út af því en auðvitað er bara nýr leikur þá. En verkefnið er krefjandi,“ sagði Patrekur að lokum í samtali við mbl.is.

mbl.is