„Svona á þetta að vera“

Geir Guðmundsson.
Geir Guðmundsson. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Akureyringurinn Geir Guðmundsson var markahæstur hjá Haukum þegar deildarmeistararnir máttu sætta sig við tap á Hlíðarenda í kvöld í fyrri úrslitaleik Íslandsmóts karla í handknattleik. 

Valur sigraði 32:29. Mætast liðin aftur á Ásvöllum á föstudagskvöldið og samanlögð úrslit skera úr um hvort liðið verður Íslandsmeistari. 

„Þetta er 120 mínútna langur handboltaleikur og nú er bara hálfleikur. Auðvitað komum við hingað til að sækja sigur en ef við spilum vel í næsta leik þá er ekki óyfirstíganlegt að ná meira en þriggja marka sigri. Auk þess skoruðum við 29 mörk á útivelli í kvöld. Ég sé ekkert því til fyrirstöðu að við náum að vinna seinni leikinn,“ sagði Geir þegar mbl.is tók hann tali á Hlíðarenda í kvöld. 

„Valsmenn áttu toppleik í kvöld. Þeir keyrðu hratt og fast á okkur. Við höfðum undirbúið okkur fyrir það og því kom það ekki á óvart.“

Geir Guðmundsson í vörninni á móti Antoni Rúnarssyni í kvöld.
Geir Guðmundsson í vörninni á móti Antoni Rúnarssyni í kvöld. mbl.is/Kristinn Magnússon

Leikurinn í kvöld var mjög hraður. Á Geir von á svipaðri spilamennsku í síðari leiknum? „Mér finnst það mjög líklegt. Menn skildu allt eftir á vellinum í kvöld og ég held að baráttan verði enn meiri í síðari leiknum. Sama hvernig hann fer þá er um síðasta leik tímabilsins að ræða. Menn munu fara „all inn“ og ég býst við hröðum og hörðum leik,“ sagði Geir og íþróttaunnendur geta því átt von á góðu á föstudaginn. „Þetta gæti orðið blóðbað en vonandi verður leikurinn bara alger veisla.“

Eftir skrykkjótt tímabil þar sem heimsfaraldurinn hafði mikil áhrif er Geir eins og aðrir leikmenn ánægður með það andrúmsloft sem skapast hefur í úrslitakeppninni. 

„Svona á þetta bara að vera. Við erum að ljúka þvílíku Covid-keppnistímabili þar sem áhorfendur voru annaðhvort bannaðir eða áhorfendafjöldi var mjög takmarkaður. Núna loksins er maður farinn að kannast við sig þegar maður getur ekki heyrt sjálfan sig hugsa inni á vellinum fyrir látum og köllum. Þetta er bara frábært,“ sagði Geir Guðmundsson sem lék um tíma með Val eftir að hann fluttist suður. 

mbl.is