Mikilvægur sigur gegn Finnum

Rakel Sara Elvarsdóttir átti stórleik í dag.
Rakel Sara Elvarsdóttir átti stórleik í dag. Ljósmynd/Þórir Tryggvason

Íslenska kvennalandsliðið í handknattleik skipað leikmönnum 19 ára og yngri vann í dag sterkan 30:27-sigur á Finnlandi í öðrum leik sínum í A2-riðli B-deildar Evrópumeistaramótsins í Skopje í Norður-Makedóníu.

Ísland var tveimur mörk­um yfir í leikhléi, 17:15, eftir jafnan og spennandi fyrri hálfleik. Finnar leiddu mest með fjórum mörkum, 13:9, en eftir það spýttu íslensku stúlkurnar vel í lófana og sneru taflinu við.

Í síðari hálfleik reyndist sigurinn aldrei í hættu og komust þær íslensku mest í sex marka forystu, 27:21, í hálfleiknum.

Aðeins slaknaði á klónni undir lok leiks en niðurstaðan að lokum góður þriggja marka sigur.

Riðlakeppn­inni lýkur á fimmtudaginn kemur með viður­eign gegn Póllandi. Náist góð úrslit í þeim leik getur Ísland tryggt sér sæti í undanúrslitum B-deildarinnar og um leið komið sér upp í A-deild.

Rakel Sara Elvarsdóttir fór á kostum í liði Íslands í dag og skoraði 10 mörk, auk þess að stela tveimur boltum. Jóhanna Margrét Sigurðardóttir var sömuleiðis öflug og skoraði sjö mörk annan leikinn í röð.

Þá átti Ólöf Maren Bjarnadóttir mjög góðan leik í markinu og varði 12 af 31 skoti sem hún fékk á sig, sem gerir 39 prósent markvörslu.

Mörk Íslands: Rakel Sara Elvars­dótt­ir 10, Jó­hanna Mar­grét Sig­urðardótt­ir 7, Bríet Ómarsdóttir 5, Sara Katrín Gunnarsdóttir 3, Katrín Tinna Jens­dótt­ir 2, Elín Rósa Magnúsdóttir 1, Emilía Ósk Steinarsdóttir 1, Ída Margrét Stefánsdóttir 1.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert