Þjálfari Vals fékk háa fjársekt

Snorri Steinn Guðjónsson, þjálfari Valsmanna.
Snorri Steinn Guðjónsson, þjálfari Valsmanna. Ljósmynd/Sigfús Gunnar

Snorri Steinn Guðjónsson, þjálfari karlaliðs Vals í handknattleik, hefur verið sektaður af Evrópska handknattleikssambandinu, EHF, fyrir framkomu sína í leik Vals og Lemgo í fyrri leik liðanna í 2. umferð Evrópudeildarinnar sem fram fór á Hlíðarenda í síðustu viku.

Leiknum lauk með 27:26-sigri þýska liðsins en Snorri gekk að ritaraborðinu eftir leik og lét starfsmenn EHF heyra það. 

Í úrskurði EHF kemur meðal annars fram að hegðun Snorra hafi verið afar óviðeigandi og ósæmileg. Þá kemur einnig fram í úrskurðinum að ummælin hafi ekki verið íþróttinni til framdráttar og skaðleg handboltahreyfingunni.

Þjálfarinn fékk 1.000 evra sekt en það samsvarar 151.000 íslenskra króna en hann og Valsmenn hafa sjö daga til að áfrýja sektinni.

Lemgo og Valur mætast í síðari leik sínum í Þýskalandi á morgun.

mbl.is