FH í vonlítilli stöðu gegn SKA Minsk

Egill Magnússon skoraði 10 mörk gegn SKA Minsk í dag.
Egill Magnússon skoraði 10 mörk gegn SKA Minsk í dag. mbl.is/Árni Sæberg

SKA Minsk frá Hvíta-Rússlandi vann sannfærandi sigur gegn FH í fyrri leik liðanna í annarri umferð Evrópubikars karla í handknattleik í Kaplakrika í Hafnarfirði í dag. 

Bæði liðin sátu hjá í fyrstu umferð keppninnar og spiluðu því sinn fyrsta leik í keppninni. Seinni leikurinn fer fram í Minsk um næstu helgi og þangað fara Hvít-Rússarnir með átta marka forskot eftir leikinn í dag sem SKA Minsk vann 37:29. 

Það leyndi sér ekki í dag að SKA Minsk er hörkulið. Hætt var við því þar sem liðið hefur átt marga landsliðsmenn hjá Hvíta-Rússlandi í gegnum árin. Liðið hafði fín tök á leiknum og hafði skorað tuttugu mörk þegar leikmenn gengu til búningsherbergja í hléi. Var það staðan orðin 20:14 og ljóst hvert stefndi. 

FH-ingar héldu betur í við gestina í síðari hálfleik og fengu ekki á sig alveg jafn mörg mörk og í fyrri hálfleik. En þó sautján mörk og munurinn jókst um tvo mörk í síðari hálfleik. 

Lið Minsk er vel skipað og FH-ingar hefðu þurft að hitta á toppleik til að eiga möguleika á sigri. Það er ekki skemmtilegt fyrir FH-inga að þurfa að ferðast til Hvíta-Rússlands og spila síðari leikinn með átta mörk í mínus. En þannig er þetta bara. 

FH-ingar geta eflaust spilað betri vörn en þeir gerðu í dag. En taka verður með í reikninginn að SKA Minsk er með fjölbreytt vopnabúr. Hávaxna menn sem geta skotið fyrir utan en einnig snögga og góða gegnumbrotsmenn eins og Kiril Samoila og Artur Rudz. Auk þess voru hornamennirnir drjúgir að skora þegar þeir fengu tækifæri til en samtals skoruðu þeir fimmtán mörk. Markvörðurinn Jahor Stasiuk átti svo sem engan stórleik en virðist nokkuð traustur. Hann varði 9 skot á þeim 45 mínútum sem hann spilaði. 

Þjóðverjinn Phil Döhler varði 12 skot í marki FH, nokkur þeirra úr dauðafærum. Egill Magnússon var mjög góður í sókninni og skoraði 10 mörk. Flest þeirra með skotum fyrir utan punktalínu. Það er góðs viti fyrir FH-inga að Egill raði inn mörkum gegn sterku erlendu liði. 

Gytis Smantauskas skoraði 6 mörk í skyttustöðunni hægra megin en var stundum svolítið þunglamalegur. Jón Bjarni Ólafsson skoraði 4 mörk af línunni og botna Hvít-Rússarnir sjálfsagt lítið í þessari sérvisku Hafnfirðinga að tefla fram örvhentum manni á línunni. 

Reyndasti maður FH-inga Ásbjörn Friðriksson var ekki mjög ógnandi í dag. Hann átti erfitt uppdráttar gegn góðri vörn SKA Minsk en mun eflaust skila fleiri mörkum í síðari leiknum. 

Lýsing uppfærist sjálfkrafa

Allar lýsingar í beinni

FH 29:37 SKA Minsk opna loka
60. mín. Ásbjörn Friðriksson (FH) skorar úr víti
mbl.is