Verður Evrópumeistaramótinu frestað?

Aron Pálmarsson, fyrirliði íslenska liðsins.
Aron Pálmarsson, fyrirliði íslenska liðsins. mbl.is/Kristinn Magnússon

Danski handknattleiksérfræðingurinn Bent Nyegaard útilokar ekki að lokakeppni Evrópumeistaramótsins, sem á að hefjast 13. janúar í Ungverjalandi og Slóvakíu, verði frestað. Þetta kom fram í viðtali hans við TV2 í Noregi.

Nýjar reglur evrópska handknattleikssambandsins kveða á um að þeir leikmenn, sem greinst hafa með kórónuveiruna í aðdraganda EM, þurfi að vera í sóttkví í fjórtán daga áður en þeir geta tekið þátt í leikjum sinna liða á mótinu. 

Þetta þýðir að leikmenn, sem greinast með veiruna þessa dagana, missa af riðlakeppni Evrópumótsins og mögulega af öllu mótinu því tvö lið úr hverjum riðli fara áfram í milliriðla.

„Þessar nýju reglur setja allt móthald í hættu, svo einfalt er það,“ sagði Nyegaard í samtali við TV2.

„Það væri fásinna að halda því fram að það munu ekki fleiri leikmenn greinast með veiruna á næstu dögum og það verður erfiðara og erfiðara fyrir leikmenn að einangra sig frá hópnum þegar svona stutt er í mót.

Ef fram heldur sem horfir þá er alls ekki útilokað að mótahaldarar neyðist til þess að fresta mótinu, alla vega eins og þetta horfir við mér á þessum tímapunkti,“ bætti Nyegaard við.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert