Guðmundur áfram með karlalandsliðið

Guðmundur Þórður Guðmundsson.
Guðmundur Þórður Guðmundsson. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Guðmundur Þórður Guðmundsson verður áfram þjálfari íslenska karlalandsliðsins í handknattleik til næstu tveggja ára.

Þetta kom fram á blaðamannafundi HSÍ, Handknattleikssambands Íslands, í Framhúsinu í Safamýri í dag.

Hann mun stýra liðinu fram yfir Ólympíuleikana 2024 sem fram fara í París í Frakklandi.

Guðmundur tók í þriðja skipti við þjálfun íslenska karlalandsliðsins í febrúar 2018 og hefur stýrt liðinu síðan en undir hans stjórn hafnaði liðið í sjötta sæti á Evrópumótinu í Ungverjalandi og Slóvakíu í janúar á þessu ári.

Guðmundur þjálfaði áður landsliðið á árunum 2001 til 2004 og frá 2007 til 2012 en undir hans stjórn fékk liðið silfur á Ólympíuleikunum í Peking 2008, brons á Evrópumótinu í Austurríki 2010 og náði fjórða sæti á Evrópumótinu í Svíþjóð 2002. Þá urðu Danir Ólympíumeistarar undir hans stjórn árið 2016.

Gunnar Magnússon verður aðstoðarþjálfari Guðmundar líkt og undanfarin ár sem og Ágúst Jóhannsson sem kom inn í þjálfarateymið fyrir Evrópumótið í janúar.

Róbert Gíslason, framkvæmdastjóri HSÍ, Guðmundur B. Ólafsson, formaður HSÍ, Guðmundur …
Róbert Gíslason, framkvæmdastjóri HSÍ, Guðmundur B. Ólafsson, formaður HSÍ, Guðmundur Þórður Guðmundsson og Gunnar Magnússon. mbl.is/Bjarni Helgason
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert