Faðma svekkelsið og koma stinnir til næsta leiks

Snorri Steinn Guðjónsson á góðu augnabliki fyrir Valsmenn í leiknum …
Snorri Steinn Guðjónsson á góðu augnabliki fyrir Valsmenn í leiknum í Eyjum í dag. Ljósmynd/Sigfús Gunnar

Snorri Steinn Guðjónsson, þjálfari Vals, var auðvitað ekki sáttur með tapið í Vestmannaeyjum í dag er liðið tapaði gegn ÍBV í úrslitaeinvígi Íslandsmótsins í handbolta. Staðan í einvíginu er núna 1:1 en ÍBV vann leikinn 33:31.

„Bara á síðustu fimm, á einhverjum færum og tæknifeilum. ÍBV þvingaði okkur í erfiða stöðu og við náðum ekki að loka þessu,“ sagði Snorri, aðspurður hvað hefði tapað leiknum.

Valsmenn voru í frábærri stöðu stuttu fyrir það, þeir voru fjórum mörkum yfir þegar rétt rúmar 10 mínútur voru eftir, þá misstu þeir aðeins tökin og ákefðina sóknarlega.

„Við vorum góðir í 55 mínútur, það er yfirleitt ekki nóg, við vissum það alveg. Við þurfum að gera þetta betur, þeir koma með áhlaup en tvær mínúturnar voru okkur erfiðar í leiknum, við náðum tvisvar góðu áhlaupi en þetta tók aðeins taktinn úr þessu. Þetta er mjög svekkjandi, það er 1:1 og við þurfum að faðma svekkelsið aðeins, vinna úr því og koma stinnir til leiks næst.“

Valsmenn byrjuðu frábærlega í síðasta leik og komust í 10:3 eftir tíu mínútur, blaðamanni fannst ÍBV aðeins ná að stoppa hraðann í liðinu í byrjun leiks í dag.

„Ég er ekki sammála því, við komumst í 9:5 eða 9:6 og erum að keyra vel, við vorum með undirtökin, við fáum svo allt of margar tvær mínútur, svo sem á báða bóga kannski. Við það riðlaðist aðeins takturinn, við skorum 31 mark sem ég er ánægður með og einnig með hraðann í leiknum. Við fáum þó á okkur of mikið af mörkum,“ sagði Snorri.

Valsmenn þurfa ekkert að fara í neitt panik og halda eflaust í sín gildi fyrir næsta leik.

„Þetta eru lokaúrslit, svona er þetta bara. Við vissum alveg að það yrði erfitt að koma til Eyja og allt það, auðvitað er maður svekktur þegar maður finnur lyktina af sigrinum. Þetta er partur af þessu, við þurfum að vinna úr þessu og gera það vel, ég hef ekki miklar áhyggjur af því að við verðum klárir eftir tvo daga.“

Valsmenn hafa verið í víglínunni í körfuboltanum og eru það núna í handboltanum líka, það hafa margir leikir verið spilaðir hér og þar í magnaðri stemningu. Það hlýtur að vera gaman að vera Valsari þessa dagana.

„Þetta er sturlað og forréttindi fyrir Valsara að vera í þessari stöðu, mér finnst líklegt að það verði troðfullt hús á miðvikudaginn, það er veisla framundan.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert