Ómar með sýningu í Hamborg - stigi frá meistaratitlinum

Ómar Ingi Magnússon átti frábæran leik með Magdeburg í dag.
Ómar Ingi Magnússon átti frábæran leik með Magdeburg í dag. Ljósmynd/Szilvia Micheller

Magdeburg er einu stigi frá þýska meistaratitlinum í handknattleik eftir stórsigur á útivelli gegn Hamburg í dag, 32:22.

Magdeburg er með átta stiga forystu á Kiel, sem vann Flensburg 28:27 fyrr í dag. Kiel á eftir fjóra leiki og Magdeburg, sem er með mun betri markatölu, á eftir þrjá leiki.

Ómar Ingi Magnússon fór á kostum með Magdeburg í dag og  skoraði tólf mörk í leiknum í Hamborg. Þrjú þeirra úr vítaköstum. Hann var með 92,3 prósent skotnýtingu í leiknum.

Gísli Þorgeir Kristjánsson skoraði tvö mörk fyrir Magdeburg sem getur nú gulltryggt sér titilinn á heimavelli gegn Balingen 2. júní.mbl.is