ÍR-ingar unnu 69 marka nýliðaslag

Viktor Sigurðsson skýtur að marki Harðar í kvöld en hann …
Viktor Sigurðsson skýtur að marki Harðar í kvöld en hann skoraði tíu mörk í leiknum. mbl.is/Eggert

ÍR hafði betur gegn Herði frá Ísafirði þegar nýliðarnir tveir í úrvalsdeild karla í handknattleik mættust í nýja íþróttahúsi ÍR-inga við Skógarsel í kvöld en lokatölur urðu 35:34 eftir hraðan og fjörugan leik.

ÍR er þá með fjögur stig eftir fyrstu fjóra leikina en Harðarmenn sitja á botninum og hafa tapað öllum sínum þremur leikjum. Þrír nýir Brasilíumenn sem komu til Ísfirðinga í vikunni voru ekki með í leiknum.

ÍR-ingar komust í 5:1 á fyrstu fimm mínútunum og þeir voru yfir allan fyrri hálfleikinn. Lengi vel munaði fjórum til fimm mörkum á liðunum en Hörður minnkaði muninn í 15:14 eftir 23 mínútur. ÍR komst aftur fjórum mörkum yfir og staðan var 19:16 í hálfleik.

ÍR-ingar héldu síðan þriggja til fjögurra marka forskoti nánast allan síðari hálfleikinn og voru komnir í 35:31 þegar hálf önnur mínúta var eftir. Ísfirðingar skoruðu hins vegar þrjú síðustu mörk leiksins.

Ólafur Rafn Gíslason átti stórleik í marki ÍR og varði 20 skot þrátt fyrir að liðið fengi á sig 34 mörk.

Mörk ÍR: Viktor Sigurðsson 10, Arnar Freyr Guðmundsson 9, Dagur Sverrir Kristjánsson 4, Sveinn Brynjar Agnarsson 4, Úlfur Gunnar Kjartansson 3, Friðrik Hólm Jónsson 3, Hrannar Ingi Jóhannsson 2.

Mörk Harðar: Mikel Amilibia 6, Suguru Hikawa 6 Endijs Kusners 5, Daníel Wale Adeleye 4, Jón Ómar Gíslason 3, Noel Virgil Bardou 3, Ásgeir Óli Kristjánsson 2, Óli Björn Vilhjálmsson 2, Tadeo Ulises 2, Victor Manuel Iturrino 1.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert