„Skelfilegir í seinni hálfleik“

Heimir Óli Heimisson í færi í leiknum í kvöld.
Heimir Óli Heimisson í færi í leiknum í kvöld. mbl.is/Óttar Geirsson

„Mér fannst við rosa flottir í fyrri hálfleik og þá vorum við að gera meira af þessum hlutum sem við viljum gera, keyra á þá og spila fína vörn. En þetta var kaflaskipt, við vorum skelfilegir í seinni hálfleik,“ sagði Ásgeir Örn Hallgrímsson, þjálfari Hauka, eftir 31:28-tap gegn Selfossi í Olísdeild karla í handbolta í kvöld.

„Það var erfitt að skora mörk í seinni hálfleiknum, við skorum allt of lítið og klikkum á dauðafærum. Við hættum að keyra á þá og fáum þá minna af hraðaupphlaupum og auðveldum mörkum,“ sagði Ásgeir.

Ásgeir Örn Hallgrímsson fórnar höndum.
Ásgeir Örn Hallgrímsson fórnar höndum. Ljósmynd/Þórir Tryggvason

„Við erum staðir og lélegir og svo kemur tímabil þar sem allir ætla að senda á Heimi þegar hann er alls ekki frír. Við höndluðum ekki að vera góðir og halda áfram að gera það sem við höfðum verið að gera vel,“ sagði Ásgeir en Haukar skoruðu 19 mörk í fyrri hálfleik og níu í seinni hálfleik.

Ásgeir Örn tók við stjórn Hauka í nóvember og fór inn í fríið með þrjá góða sigra í röð. Hann þarf þó enn að vinna í ýmsum hlutum, kannski ekki síst í andlega þættinum, því þar voru Selfyssingar sterkari í kvöld.

„Ég fékk fínan tíma í fríinu til að bæta það sem ég vil bæta og ég taldi okkur vera á mjög góðum stað. En við náðum ekki í tvö stig í dag þannig að við þurfum bara að halda áfram. Það kostar bara hellings vinnu að ná í stig,“ sagði Ásgeir að lokum.

mbl.is