Undraverður bati Gísla Þorgeirs

Gísli Þorgeir Kristjánsson er búinn að jafna sig á meiðslum.
Gísli Þorgeir Kristjánsson er búinn að jafna sig á meiðslum. mbl.is/Óttar Geirsson

Gísli Þorgeir Kristjánsson, landsliðsmaður í handbolta, verður í leikmannahópnum hjá Magdeburg er liðið leikur við Stuttgart í þýsku 1. deildinni í handbolta í kvöld.

Leikstjórnandinn ökklabrotnaði í leik Magdeburgar og Wisla Plock frá Póllandi í átta liða úrslitum Meistaradeildarinnar fyrir tæpum mánuði og var óttast að tímabilið væri búið hjá leikmanninum.

Bati Gísla hefur hins vegar gengið vonum framar og er hann klár í slaginn fyrir lokakafla tímabilsins. Magdeburg á stórleik gegn Barcelona í undanúrslitum Meistaradeildarinnar á laugardaginn kemur.

„Íslenski leikstjórnandinn Gísli Kristjánsson snýr aftur í leikmannahópinn eftir fjögurra vikna fjarveru vegna meiðsla. Stíf endurhæfing, sem tók marga klukkutíma á dag, hefur skilað árangri og hann byrjaði að æfa í vikunni,“ segir í yfirlýsingu félagsins í dag.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert