Dagur yfirgefur japanska landsliðið

Dagur Sigurðsson hefur yfirgefið japanska landsliðið.
Dagur Sigurðsson hefur yfirgefið japanska landsliðið. AFP

Handknattleiksþjálfarinn Dagur Sigurðsson er hættur þjálfun japanska karlalandsliðsins eftir sjö ára starf. Handknattleikssambandið þarlendis staðfesti fregnirnar í morgun. 

Þar kemur fram að hann muni taka við öðru landsliði. Nokkuð ljóst er að það lið verður Króatía en Dagur hefur verið orðaður við starfið undanfarna daga. Króatía rak þjálfarann Goran Perkovac eftir slakan árangur á Evrópumótinu í síðasta mánuði. 

Dagur yfirgefur japanska landsliðið þrátt fyrir að samningur hans hafi náð fram yfir Ólympíuleikana í sumar, sem Japan tekur þátt í. 

Japanir eru vonsviknir yfir ákvörðun Dags og greina frá því að hann hafi tilkynnt sambandinu að hann vildi hætta með landsliðið til að taka við öðru. 

Ef Dagur tekur við Króatíu býður honum verðugt verkefni um miðjan Mars er liðið spilar í undankeppni Ólympíuleikana. Þar eru Króatar í riðli með Þýskalandi, liði Alfreðs Gísalasonar, Austurríki og Alsír. Leikið verður í Þýskalandi og komast tvö efstu liðin á Ólympíuleikana. 

Dag­ur hef­ur einnig stýrt aust­ur­ríska landsliðinu og þýska landsliðinu á þjálf­ara­ferl­in­um en hann gerði Þjóðverja að Evr­ópu­meist­ur­um árið 2016 og þá unnu Þjóðverj­ar til bronsverðlauna und­ir stjórn Dags á Ólymp­íu­leik­un­um í Ríó sama ár.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert