Evrópumeistari, takk fyrir mig

Magnús Óli Magnússon kampakátur í leikslok.
Magnús Óli Magnússon kampakátur í leikslok. mbl.is/Jóhann Ingi

„Þetta er ólýsanlegt,“ sagði Magnús Óli Magnússon leikmaður Vals í samtali við mbl.is eftir að hann varð Evrópubikarmeistari með Hlíðarendaliðinu.

„Ég er búinn að vera grátandi síðan leiknum lauk. Þetta er besta tilfinning sem ég hef upplifað á mínum handboltaferli. Þetta er sætasti titill sem ég hef unnið á mínum handboltaferil.

Að vera Evrópumeistari og kominn í sumarfrí á Grikklandi, það er ekki hægt að biðja um meiri veislu. Það er ólýsanlegt þetta augnablik þegar boltinn fer í slána og ég fæ Benna í fangið,“ sagði Magnús himinlifandi eftir leik.

Valsmenn lentu í erfiðleikum í leiknum og voru mest sjö mörkum undir. Liðið sýndi hins vegar mikinn styrk og náði að tryggja sér vítakeppni, þar sem Valur skorað úr öllum fimm vítaköstum sínum gegn fjórum hjá heimamönnum.

„Við vorum óhræddir. Það var baulað á okkur allan leikinn. Fólk var öskrandi og gargandi allan leikinn og það má ekki láta svona fara í hausinn á sér. Það var ekkert annað í stöðunni en að rífa sig í gang í seinni og sem betur fer small þetta í vító. Evrópumeistari, takk fyrir mig.“

Magnús var ólíkur sjálfum sér í fyrri hálfleik en var einn besti maður vallarins í seinni hálfleik og skoraði sex mörk, áður en hann bætti við sjöunda markinu í vítakeppninni.

„Mér leið skringilega í fyrri hálfleik. Það er viðbjóðslega heitt hérna og maður var ekki alveg í takti. Maður var stressaður en svo náði maður aðeins að anda í hálfleik og minna sig á hluti sem maður hefur gert í gegnum tímabilið. Það fóru allir upp um eitt prósent í seinni hálfleik,“ sagði Magnús.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert