Valur Evrópubikarmeistari eftir lygilegan leik

Valsmenn með bikarinn eftir leikinn í Aþenu í kvöld.
Valsmenn með bikarinn eftir leikinn í Aþenu í kvöld. Ljósmynd/Jóhann Ingi

Valur skrifaði nýjan kafla í íslenska handboltasögu með því að tryggja sér Evrópubikarmeistaratitil karla í Aþenu í kvöld með sigri á gríska liðinu Olympiacos í vítakeppni.

Er Valur fyrsta íslenska liðið sem vinnur Evróputitil. Valur vann fyrri leikinn á heimavelli 30:26. Lokatölurnar í kvöld urðu 31:27 og réðust úrslitin því í vítakeppni þar sem Valur vann 5:4.

Grikkirnir byrjuðu betur og virtist skrekkur í Valsmönnum í gífurlega krefjandi aðstæðum. Olympiacos var komið í 4:1 eftir sex mínútur og voru gestirnir úr Hlíðarenda að elta frá fyrstu mínútu.

Staðan var 7:3 þegar fyrri hálfleikur var tæplega hálfnaður og staðan í einvíginu hnífjöfn. Valsmenn gáfust ekki upp og komust yfir í einvíginu í stöðunni 13:10.

Gríska liðið var hins vegar sterkara í lok fyrri hálfleiks og fór með fimm marka forskot í hálfleik, 16:11, og eins marks forystu í einvíginu.

Valsmenn gera sig klára fyrir leik.
Valsmenn gera sig klára fyrir leik. Ljósmynd/EHF

Ísak Gústafsson skoraði þrjú mörk fyrir Val í hálfleiknum og þeir Benedikt Gunnar Óskarsson og Agnar Smári Jónsson tvö mörk hvor.

Heimamenn byrjuðu betur í seinni hálfleik og þegar hann var hálfnaður var munurinn kominn upp í sjö mörk, 24:17, og staða Valsmanna orðin býsna erfið.

Valsmenn eru ekki þekktir fyrir að gefast upp og það gerðu þeir ekki í kvöld. Með glæsilegum kafla tókst þeim að minnka muninn niður í fjögur mörk og jafna einvígið þegar tíu mínútur voru eftir, 26:22.

Hún var svo áfram fjögur mörk þegar rúm mínúta var eftir og heimamenn tóku leikhlé, 30:26, en þannig endaði einmitt fyrri leikurinn.

Nikolaos Passias kom Olympiacos í 31:26 í kjölfarið og gat Valur jafnað einvígið með marki í sinni lokasókn í venjulegum leiktíma. Tók Óskar Bjarni Óskarsson þá leikhlé.

Það gekk vel því Magnús Óli Magnússon skoraði og tryggði Val jafntefli í venjulegum leiktíma og réðust úrslitin því í vítakeppni.

Þar skoruðu Valsmenn úr öllum fimm vítunum sínum á meðan Olympiacos skoraði úr fjórum af fimm og Valur er Evrópubikarmeistari 2024.

Olympiacos 35:32 Valur opna loka
61. mín. Valsmenn byrja. Benedikt með fyrsta vítið.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert