Ég datt bara út

Valsmenn kampakátir í leikslok.
Valsmenn kampakátir í leikslok. mbl.is/Jóhann Ingi

Tjörvi Týr Gíslason línu- og varnarmaður Vals var eins og aðrir Valsarar kampakátur í gær er liðið varð Evrópubikarmeistari í handbolta með sigri á Olympiacos frá Grikklandi í vítakeppni í Aþenu.

Valsmenn voru búnir að skora úr fimm vítum í röð þegar Savvas Savvas klikkaði á fimmta víti heimamanna.

„Ég náði einhvern veginn ekki að meðtaka þetta. Ég datt bara út. Við hliðina á mér stóðu Alexander Örn og Alexander Petersson og þeir sögðu að þetta myndi gerast. Ég bjóst einhvern veginn við þessu,“ sagði Tjörvi.

Lætin í höllinni í Aþenu voru gríðarleg og leikurinn erfiður fyrir Val, sem lenti mest átta mörkum undir. „Við erum orðnir vanir þessu. Þessi keppni er okkar og þetta mótlæti hefur mótað okkur. Þetta mótlæti var hins vegar engu öðru líkt.“

Tjörvi er uppalinn hjá Val og hafa tveir eldri bræður hans einnig spilað með liðinu.

„Ég átta mig ekki á því í kvöld hvað þetta er stórt. Það mun taka nokkrar vikur. Þegar eldri kynslóð Valsara segja mér hvað þetta þýðir þá fatta ég þetta betur.

Það er frábært að sjá fólk koma alla leið hingað og styðja okkur. Þetta gefur manni ótrúlega mikið,“ sagði Tjörvi Týr.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert