Sleipnisbikarinn fór til Spuna

Heiðursverðlaunahestarnir stilltu sér upp.
Heiðursverðlaunahestarnir stilltu sér upp. Ljósmynd/Nína Guðrún Geirsdóttir

Fjöldi manns var í Víðidal á lokakvöldi Landsmóts hestamanna í gærkvöldi. Telja mótshaldarar að rúmlega 8 þúsund manns hafi verið á svæðinu og í áhorfendabrekkunni en um kvöldið fóru einnig fram æsispennandi keppnir í 100 m skeiði og tölti á keppnisvellinum 

Í ár hlaut Sleipnisbikarinn gæðingurinn og stóðhesturinn Spuni frá Vesturkoti en hann var efstur þeirra hesta sem fá heiðursverðlaun fyrir afkvæmi sín. Finnur Ingólfsson tók við bikarnum frá Kristjáni Þór Júlíussyni ráðherra en hann er ræktandi hestsins. Hulda Finnsdóttir dóttir Finns er eigandi Spuna og hefur maður hennar, Þórarinn Ragnarsson, verið knapi hans undanfarin ár. Undan Spuna eru 426 afkvæmi en sjálfur er hann af kunnum gæðingaættum. Eftir verðlaunaafhendinguna sýndu Spuni og hinir heiðursverðlaunahestarnir hvað í þeim bjó á vellinum við góðar undirtektir áhorfenda. 

Mikill fjöldi var samankominn til að fylgjast með úrslitakeppnum Landsmóts ...
Mikill fjöldi var samankominn til að fylgjast með úrslitakeppnum Landsmóts og afhendingu Sleipnisbikarsins. Ljósmynd/Nína Guðrún Geirsdóttir

Þá sigraði Árni Björn Pálsson í tölti á Ljúfi frá Torfunesi, en þetta er þriðja árið í röð sem hann sigrar í flokknum. Fast á hæla honum var Jakob Svavar Sigurðsson á Júlíu frá Hamarsey með 9,06. Í 100 metrunum í skeiði varð fljótastur landsmótssigurvegarinn Konráð Valur Sveinsson og Kjarkur frá Árbæjarhjáleigu II á 7,48 sekúndum sem tryggði sér með því sigurinn annað árið í röð.

Í dag er síðasti dagur mótsins. Hjörtur Bergstað, formaður hestamannafélagsins Fáks sem heldur landsmótið í ár, er ánægður með hvernig til hefur tekist. Þetta er búið að ganga vonum framar og í raun allt gengið upp. Eina sem hægt er að kvarta undan er veðrið og það hefur ekki einu sinni náð að setja strik í reikninginn. Okkur heyrist á öllu að fólk sé sátt með þetta.“

Heiðursverðlaunahestarnir tóku nokkra hringi við dynjandi lófaklapp.
Heiðursverðlaunahestarnir tóku nokkra hringi við dynjandi lófaklapp.
mbl.is