„Við getum ekki beðið“

Hörður Björgvin í Laugardalnum í morgun.
Hörður Björgvin í Laugardalnum í morgun. mbl.is/Eggert

„Fiðringurinn er að byrja og stemningin gæti ekki verið betri. Þetta er ótrúlega skemmtilegt og við getum ekki beðið eftir HM,“ sagði Hörður Björgvin Magnússon, landsliðsmaður í knattspyrnu, þegar mbl.is ræddi við hann fyrir landsliðsæfingu í morgun. 

Hörður sagðist ekki hafa orðið neitt sérstaklega mikið var við umræðu um íslenska HM-ævintýrið á Bretlandseyjum í vetur en hann spilar með Bristol City í ensku b-deildinni. 

„Nei ég fann ekki fyrir þrýstingi frá fjölmiðlum í sambandi við þetta. Kannski eru Englendingar bara enn í fýlu út í okkur. En það voru einhverjir blaðamenn sem höfðu áhuga á íslenska landsliðinu og bara gaman að geta deilt einhverju með þeim þannig að Englendingar geti lesið um okkur í blöðunum. Samherjarnir hjá Bristol samglöddust mér en enginn þeirra hefur spilað A-landsleik fyrir England. Þeir eru bara stoltir að eiga vin í A-landsliði sem sló út þeirra landslið á EM þótt auðvitað vilji þeir að Englandi gangi vel.“

Hörður segir ensku b-deildina vera sterka og krefjandi. „Mér finnst vera heiður að spila í þessari deild og hún er á meðal þeirra sterkustu í heimi. Leikirnir eru mjög margir á tímabilinu og það getur verið erfitt andlega. Þegar landsliðsverkefnin eru þá fá liðsfélagar mínir kannski vikufrí og skella sér jafnvel í sólina en ég fer þá í landsleiki. En ég er sáttur við það hlutskipti og landsliðsverkefnin eru hálfgert frí að manni finnst því það er svo gaman að spila með landsliðinu og fyrir þjóðina,“ sagði Björgvin en gert er ráð fyrir því að hann mæti aftur í vinnuna 17. júlí en það gæti breyst eftir því hvernig Íslandi gengur á HM. 

„Maður verður að fá eitthvað frí frá fótboltanum. Maður getur ekki verið í því á hverjum degi í heilt ár. Við sjáum hvað gerist í sumar en ég er með tveggja ára samning við Bristol,“ sagði Hörður í samtali við mbl.is.

Hörður Björgvin Magnússon
Hörður Björgvin Magnússon mbl.is/Skúli B. Sigurðsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert