Jafntefli í síðasta leik fyrir brottför

Ísland gerði 2:2-jafntefli við Gana í vináttulandsleik á Laugardalsvelli í kvöld, í síðasta leiknum fyrir HM karla í knattspyrnu í Rússlandi. Næsti leikur liðsins er gegn Argentínu þann 16. júní í Moskvu.

Íslenska liðið var mun öflugra á fyrstu mínútum leiksins og svo virtist sem Ganverjar væru hreint ekki tilbúnir. Ísland komst yfir með afar auðveldu skallamarki Kára Árnasonar eftir hornspyrnu Jóhanns Berg Guðmundssonar eftir aðeins fimm mínútna leik, og fékk fleiri góð tækifæri á meðan að gestirnir voru enn að ná áttum.

Eftir því sem leið á fyrri hálfleikinn jafnaðist leikurinn nokkuð og Hannes Þór Halldórsson, sem hrist hefur af sér nárameiðsli og er klár í slaginn fyrir HM, varði afar vel frá Atlético Madrid-manninum Thomas Partey á 24. mínútu. Gana sótti áfram í sig veðrið en náði ekki að jafna og í staðinn kom Alfreð Finnbogason Íslandi í 2:0 skömmu fyrir leikhlé. Aðdragandi marksins var frábær en Birkir Bjarnason og Gylfi Þór Sigurðsson léku vel á milli sín áður en Gylfi átti skot sem var varið, og Alfreð var svo á réttum stað til að skalla boltann í netið.

Gylfi lék sinn fyrsta byrjunarliðsleik eftir að hafa meiðst í hné um miðjan mars og sýndi hversu dýrmætur hann er íslenska liðinu. Ekki var á nokkurn hátt að sjá að hann hefði verið frá keppni í tvo og hálfan mánuð og frammistaða hans og alls liðsins í fyrri hálfleik lofar góðu fyrir HM í Rússlandi, þrátt fyrir að mótstaðan hafi ekki verið mjög mikil.

Gana nálægt því að landa sigrinum

Í seinni hálfleik hafði Gana mun betri tök á leiknum og pressaði á köflum nokkuð gegn íslenska liðinu, sérstaklega framan af seinni hálfleiknum. Á 66. mínútu tókst gestunum svo að minnka muninn þegar Kasim Nuhu þrumaði boltanum efst í vinstra markhornið eftir hornspyrnu, eftir klaufaskap Ragnars Sigurðssonar sem mistókst að hreinsa í burtu.

Gestirnir voru áfram sterkari aðilinn og náðu að lokum að jafna metin, nokkrum mínútum fyrir leikslok, með skoti Thomas Partey úr teignum. Félagi hans, Kwasi Okyere, var raunar nálægt því að tryggja Gana sigurinn í kjölfarið með skoti úr sams konar færi, en Hannes varði.

Heimir Hallgrímsson gaf Hólmari Erni Eyjólfssyni tækifæri í stöðu hægri bakvarðar og hann komst ágætlega frá sínu, í það minnsta í varnarleiknum. Þegar leið á seinni hálfleik fengu varamenn að spreyta sig og ef horft er til leikjanna tveggja, við Gana og Noreg síðasta laugardag, fengu nær allir í 23 manna hópi Íslands að láta til sín taka. Aðeins fyrirliðinn Aron Einar Gunnarsson, sem hitaði þó upp með félögum sínum, og markvörðurinn Rúnar Alex Rúnarsson komu ekkert við sögu í leikjunum.

Íslenski hópurinn heldur af stað til Rússlands á laugardaginn og fyrsti leikur á HM, gegn Argentínu, er svo þann 16. júní í Moskvu.

Ísland 2:2 Gana opna loka
90. mín. Leik lokið Strákunum tókst ekki að taka sigur með sér til Rússlands en aðalatriðið er nú að liðinu gangi vel þar. Ísland - Argentína, 16. júní í Moskvu, er næst á dagskrá.
mbl.is

Bloggað um fréttina