Lokuðu með hengilási og hentu lyklinum

Íslenski varnarmúrinn var þéttur á laugardaginn og Argentínumenn fundu fáar ...
Íslenski varnarmúrinn var þéttur á laugardaginn og Argentínumenn fundu fáar leiðir. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Augu heimsbyggðarinnar eru áfram á íslenska karlalandsliðinu í knattspyrnu. Áhuginn á því fyrir leikinn gegn Argentínu í Moskvu var gríðarlegur og eftir jafnteflið óvænta á Spartak-leikvanginum á laugardaginn, 1:1, er ljóst að athyglin mun halda áfram að beinast að Heimi Hallgrímssyni og strákunum hans sem komust á blað í frumraun sinni í lokakeppni heimsmeistaramóts með því að taka stig af tvöföldum heimsmeisturum Argentínu.

Enn eina ferðina sýndi íslenska liðið þann mikla karakter og reynslu sem það býr yfir. Enn eina ferðina náði það að svara fyrir sig eftir að hafa lent undir gegn firnasterkum andstæðingi.

Þáttur Hannesar Þórs Halldórssonar var ómetanlegur. Hann varði tvisvar mjög vel í leiknum og kórónaði frammistöðuna með því að verja vítaspyrnuna frá Messi um miðjan síðari hálfleik – þegar allir héldu að besti knattspyrnumaður heims myndi gera út um leikinn af vítapunktinum. Nema Hannes, sem taldi sig vita upp á hár hvar snillingurinn myndi skjóta, og hafði rétt fyrir sér.

Messi reyndi og reyndi, hann átti ellefu skot að marki íslenska liðsins en náði aldrei að prjóna sig í gegnum þéttan varnarpakkann við vítateiginn. Vítaspyrnan var hans alvörutækifæri. Ljóst var að Heimir og aðstoðarmenn hans höfðu unnið heimavinnuna upp á tíu, lokað var frábærlega á leiðirnar fyrir Messi með skipulögðum hætti þar sem Emil Hallfreðsson og Aron Einar Gunnarsson báru mesta ábyrgðina á að hann slyppi ekki í gegn, í náinni samvinnu við Ragnar Sigurðsson og Kára Árnason. Dagskipunin var sú að Kári og Ragnar væru aldrei meira en 10 metrum fyrir aftan Emil og Aron, og þannig var svæðinu framan við vítateig Íslands lokað með hengilási og lyklinum fleygt. Þetta tókst nánast fullkomlega.

Sjá greinina í heild, umsagnir um frammistöðu hvers og eins leikmanns ásamt einkunnagjöf, og ítarlega umfjöllun um heimsmeistaramótið í Rússlandi í Morgunblaðinu í dag.

Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.790 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »