„Hefði ekki trúað þessu fyrir tveimur árum“

Harry Maguire fagnar eftir að England tryggði sér sæti í ...
Harry Maguire fagnar eftir að England tryggði sér sæti í undanúrslitum. AFP

Enskir fjölmiðlar og stuðningsmenn halda vart vatni yfir frammistöðu miðvarðarins Harry Maguire á HM í Rússlandi. Maguire skoraði fyrsta landsliðsmark sitt, í tíunda leiknum, þegar hann skallaði boltann af krafti í markið í 2:0-sigri Englands gegn Svíþjóð í 8-liða úrslitum fyrr í dag.

Maguire, 25 ára gamall leikmaður Leicester í ensku úrvalsdeildinni, lék fyrsta landsleik sinn í fyrra, í 1:0-sigri gegn Litháen í síðasta leik undankeppni heimsmeistaramótsins. Hann hefur byrjað fjóra af fimm leikjum heimsmeistaramótsins en hann kom inn á sem varamaður í upphafi seinni hálfleiks gegn Belgíu, í leik sem skipti engu máli.

Enskir stuðningsmenn í London voru í stuði í dag.
Enskir stuðningsmenn í London voru í stuði í dag. AFP

Maguire hóf ferilinn með unglingaliði Sheffield United og lék sinn fyrsta leik með aðalliði félagsins í apríl 2011. Liðið féll um vorið í þriðju efstu deild og þar lék Maguire næstu þrjú tímabilin.

Sumarið 2014 gekk Maguire til liðs við Hull. Þar lék hann næstu þrjú tímabilin, ef undan er skilinn lánskafli hjá Wigan vorið 2015.

Stuðningsmaður á EM fyrir tveimur árum

Hull féll úr úrvalsdeildinni vorið 2017 og Leicester keypti Maguire þaðan. Frammistaða hans á síðasta tímabili með „Refunum“ var mjög góð en hann var valinn leikmaður ársins af stuðningsmönnum og samherjum sínum. 

Fyrir tveimur árum síðan var staða Maguire önnur en hún er í dag. Þá fór hann ásamt félögum sínum á leik Englands og Slóvakíu í riðlakeppni EM í Frakklandi skömmu eftir að Hull tryggði sér sæti í úrvalsdeildinni. 

„Það er draumi líkast að leika með landsliðinu og ég er gríðarlega stoltur,“ sagði Maguire í viðtali skömmu áður en Englendingar héldu austur á bóginn. 

„Ég hefði ekki trúað þessu fyrir tveimur árum,“ sagði Maguire þegar hann var spurður hvort hann hefði grunað fyrir tveimur árum að hann myndi vera á leið á HM með landsliðinu. 

Maguire skallar boltann. Augnabliki síðar var England komið með forystu.
Maguire skallar boltann. Augnabliki síðar var England komið með forystu. AFP

Bróðirinn „fárveikur“

Bróðir Harrys, Laurence Maguire, er einnig atvinnumaður í knattspyrnu og leikur með neðri deildarliðinu Chesterfield. Laurence missti af æfingaleik Chesterfield í dag en knattspyrnustjóri liðsins greindi frá því í vikunni að hann væri með „rússnesku flensuna“ og tæki ekki þátt í leiknum. Eina leiðin til að ná bata væri að fara til Rússlands og horfa á leik Englands og Svíþjóðar.

Laurence hefur væntanlega ekki séð eftir því en hann varð þar vitni að því þegar bróðir hans skoraði sitt fyrsta landsliðsmark og einnig komst England í fyrsta skipti í 28 ár í undanúrslit á HM í knattspyrnu.

mbl.is