„Vissi ekki hver hann var“

Kylian Mbappé.
Kylian Mbappé. AFP

Fyrri undanúrslitaleikurinn á heimsmeistaramótinu í knattspyrnu fer fram í St. Petersburg í kvöld þegar Belgar og Frakkar leiða saman hesta sína.

Bæði Frakkar og Belgar hafa sýnt frábær tilþrif inn á milli á HM og valinn maður er í hverju rúmi hjá báðum liðum. Til að mynda hefur hinn 19 ára gamli Kylian Mbappé, framherji franska landsliðsins, vakið verðskuldaða athygli með hraða sínum og leikni og ljóst er að Belgar verða að hafa góðar gætur á honum.

Kevin De Bruyne einn af lykilmönnum Belga segist ekki hafa vitað hver Kylian Mbappé var fyrir 18 mánuðum. Þá áttust Manchester City og Monaco við í Meistaradeildinni þar sem Monaco sló City út í 16-liða úrslitunum.

„Hann hafði bara spilað eitthvað í kringum 10 leiki á þessum tímapunkti og ég vissi ekki hver hann var. Nú hefur hann spilað marga leiki í frönsku 1. deildinni, Meistaradeildinni og með landsliðinu. Hann er allt annar leikmaður núna. Hann verður stjarna næstu 15 árin og getur auðveldlega orðið enn betri,“ segir De Bruyne í viðtali við enska blaðið Telegraph.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert