Þrúgaðir af spennu og ábyrgð

Romelu Lukaku og Roberto Martínez fylgjast áhyggjufullir með gangi mála …
Romelu Lukaku og Roberto Martínez fylgjast áhyggjufullir með gangi mála í tapleiknum gegn Marokkó. AFP/Jack Guez

Roberto Martínez, þjálfari belgíska landsliðsins í knattspyrnu, segir að sínir menn hafi verið þrúgaðir af spennu og ábyrgð í fyrstu tveimur leikjum þess á heimsmeistaramótinu í Katar.

Belgar unnu nauman sigur á Kanada, 1:0, í fyrstu umferðinni og töpuðu síðan óvænt fyrir Marokkó, 0:2. Þeir eru í öðru sæti heimslista FIFA en eiga á hættu að missa af sæti í sextán liða úrslitunum ef þeim tekst ekki að vinna Króata í lokaumferð F-riðilsins á morgun.

Fregnir hafa verið um rifrildi og alls kyns ósætti í herbúðum Belga síðustu daga en Martínez sagði á fréttamannafundi í dag að það væru falsfréttir.

„Það vantaði leikgleðina í hópinn, ábyrgðin var orðin þrúgandi. Hver einasti leikmaður var orðinn hræddur við að tapa. Það er ekki reiknað með því að við töpum. Nú eru hlutirnir hins vegar á hreinu fyrir morgundaginn. Ef við gerum jafntefli erum við úr leik," sagði Martínez.

Fyrir lokaumferðina eru Marokkó og Króatía með 4 stig, Belgía 3 en Kanada ekkert. Marokkó mætir Kanada á meðan Belgía mætir Króatíu.

mbl.is