Finn mikið til með Guðjóni

Bjarki Már Elísson.
Bjarki Már Elísson. Ljósmynd/Uros Hocevar

Bjarki Már Elísson, hornamaðurinn snjalli sem leikur með þýska liðinu Füchse Berlin, sá ekki fyrir sér að hann væri á leið með íslenska landsliðinu á heimsmeistaramótið í handknattleik eftir að Guðmundur Þórður Guðmundsson tilkynnti honum í síðasta mánuði að hann hefði ekki verið valinn í 20 manna hópinn.

Bjarki Már var valinn í 28 manna hópinn en þegar Guðmundur skar hópinn niður í 20 leikmenn var Bjarki einn þeirra sem þurfti að bíta í það súra epli að detta út. Bjarki var kallaður inn í landsliðshópinn sem lék á æfingamótinu í Noregi á dögunum vegna veikinda Stefáns Rafn Sigurmannssonar og í dag þegar ljóst var að landsliðsfyrirliðinn Guðjón Valur Sigurðsson gæti ekki verið með á HM vegna meiðsla var Bjarki valinn í lokahópinn.

„Ég átti alls ekki von á þessu. Ég var kallaður inn í hópinn sem spilaði á mótinu í Noregi en Gummi sagði við mig þar að ég yrði að vera klár ef eitthvað kæmi upp á. Svo gerðist þetta hjá Guðjóni Vali í dag sem er mjög leiðinlegt. Eins glaður og ég er að fara á HM þá finn ég mikið til með Guðjóni,“ sagði Bjarki Már í samtali við mbl.is.

„Ég hef alltaf notið þess að spila með landsliðinu og ég hef verið svo heppinn að fara á tvö stórmót með því. Vonandi get ég gert einhverjar rósir á þessu móti sem og liðið. Nú er það undir mér og Stebba komið að fylla skarð Guðjóns og ég treysti okkur báðum til að spila vel og skila góðu framlagi til liðsins,“ sagði Bjarki Már.

Svekkjandi símtal

Bjarki segist hafa verið mjög svekktur þegar hann fékk símtalið frá Guðmundi þegar hann tilkynnti honum að hann hefði ekki valið hann í 20 manna hópinn.

„Það var ansi svekkjandi símtal. Þetta er mót sem mig langaði mikið til að fara á enda fer það fram í mekka handboltans, Þýskalandi og Danmörku. Ég var mættur í leik þegar hann hringdi í mig en þetta „mótiveraði“ mig aðeins fyrir leikinn því mér gekk ansi vel,“ sagði Bjarki, sem er 28 ára gamall. Hann hefur spilað með Füchse Berlin frá árinu 2015 en gerði á dögunum samning við þýska liðið Lemgo og gengur í raðir þess í sumar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert