Ánægður með viðbrögð Sagosen

Sander Sagosen að skora fyrir Norðmenn á HM.
Sander Sagosen að skora fyrir Norðmenn á HM. AFP

Sander Sagosen, stórstjarna norska karlalandsliðsins í handknattleik, er svekktur að hafa ekki náð að vinna heimsmeistaratitilinn og viðbrögð hans gleðja landsliðsþjálfarann.

Norðmenn steinlágu fyrir Dönum í úrslitaleiknum í Herning á sunnudaginn og annað heimsmeistaramótið í röð urðu Norðmenn að sætta sig við silfurverðlaunin.

„Við erum ekki ánægðir að vera númer tvö. Markmiðið er alltaf gullið svo það hjálpar ekki að vera ánægður með silfrið. Toppíþróttafólk setur sér alltaf það markmið að vinna,“ sagði Sagosen við fréttamenn þegar Norðmenn sneru heim frá Danmörku.

„Við erum með ungt lið og að sjá vonbrigði leikmanna eftir leikinn var ekki gaman en það er góð tilfinning að sjá það á leikmönnum þínum þegar þér hefur ekki tekist að komast alla leið með þá,“ sagði Christian Berge, landsliðsþjálfari Norðmanna.

 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert