Janus Daði ekki meira með á HM

Janus Daði Smárason.
Janus Daði Smárason. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Janus Daði Smárason leikstjórnandi íslenska landsliðsins í handknattleik leikur ekki meira með liðinu á heimsmeistaramótinu vegna meiðsla og er á förum heim frá Egyptalandi.

Guðmundur Þ. Guðmundsson landsliðsþjálfari staðfesti þetta við mbl.is rétt í þessu og sagði að ekki væri verjandi að reyna að nota Janus frekar á mótinu. Hann tók þátt í fyrsta leiknum gegn Portúgal en var hvíldur í leiknum við Alsír í gær.

„Við gerðum okkur vonir um að geta verið með hann í hópnum áfram og notað hann af og til á mótinu en hann er einfaldlega svo kvalinn í öxlinni og á jafnvel erfitt með svefn af þeim sökum, að það var ekki verjandi. Ég býst við að hann haldi heim á leið á þriðjudaginn," sagði Guðmundur.

Hann bjóst ekki við að kalla leikmann inn í hópinn í staðinn. „Nei, það er ekki einfalt og við erum með Magnús Óla og Elvar Örn sem geta leyst miðjustöðuna vel," sagði Guðmundur ennfremur.

mbl.is