Jafn spenntur á hverju ári

Andri Már Mikaelsson, fyrirliði SA.
Andri Már Mikaelsson, fyrirliði SA. Ljósmynd/Þórir Ó. Tryggvason

Mikil eftirvænting ríkir fyrir úrslitarimmu Skautafélags Akureyrar og Skautafélags Reykjavíkur, SR, um Íslandsmeistaratitilinn í íshokkíi karla sem hefst í kvöld í Skautahöllinni á Akureyri.

Andri Már Mikaelsson, fyrirliði Akureyrarliðsins, segir síðustu daga hafa farið í undirbúning enda verði þétt leikið í vikunni og eins gott fyrir leikmenn að vera klárir í bátana.

Fyrsti leikurinn verður í kvöld og hefst klukkan 19.30, önnur viðureignin í Laugardal á fimmtudagskvöldið og þriðji leikurinn á Akureyri á laugardaginn. Framhaldið skýrist að loknum þriðja leiknum en til þess að vinna Íslandsmeistaratitilinn er gerð krafa um að annað hvort liðið vinni þrjár viðureignir.

Skautafélag Akureyrar, SA, hefur oftast orðið Íslandsmeistari í íshokkíi karla og m.a. unnið titilinn á hverju ár frá 2013 að árinu 2017 undanskildu þegar Esja bar sigur úr býtum eftir hörkuleiki við Akureyringa. Norðanmenn náðu fram hefndum fyrir ári þegar þeir endurheimtu Íslandsbikarinn eftir þrjá sigurleiki á Esjumönnum. Esjuliðið var lagt niður á síðasta sumri og flestir leikmenn liðsins gengu til liðs við SR. Fyrir vikið hefur SR á að skipa afar sterku liði um þessar mundir.

SA vann deildarkeppnina á dögunum þrátt fyrir 4:3 tap fyrir SR í lokaleiknum í Skautahöllinni í Laugardal í síðustu viku.

„Þótt við ynnum Esjumenn í þremur leikjum í fyrra þá segir það ekki alla söguna um hvernig leikirnir voru. Um var að ræða jafna og spennandi leiki. Við í SA búum okkur undir að viðureignirnar við SR að þessu sinni verði ekki síður jafnar. Það segir ekki alltaf alla söguna þótt við höfum haft betur í flestum leikjum við SR í vetur. Viðureignirnar voru yfirleitt mjög skemmtilegar,“ sagði Andri Már þegar Morgunblaðið heyrði í honum hljóðið í gær.

Góður stuðningur á heimavellinum

„Það er alltaf kostur að eiga heimaleik í fyrstu umferð úrslitakeppninnar. Við kunnum alltaf best við okkur heima þar sem stuðningurinn er mikill. Áhuginn fyrir hokkíinu er alltaf mikill hér á Akureyri og vel stutt við bakið á okkur,“ sagði Andri Már sem klæjar í lófana yfir að hefja úrslitarimmuna.

Sjá allt viðtalið við Andra Má í íþróttablaði Morgunblaðsins í dag

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert