Tryggvi tekur þátt í nýliðavalinu

Tryggvi Snær Hlinason tekur þátt í NBA-nýliðavalinu.
Tryggvi Snær Hlinason tekur þátt í NBA-nýliðavalinu. mbl.is/Kristinn Magnússon

Tryggvi Snær Hlinason, landsliðsmaður í körfubolta og leikmaður Valencia á Spáni, verður þátttakandi í nýliðavali NBA sem fer fram í New York í næstu viku. Jonathan Givony, sem er sérfræðingur ESPN í valinu, staðfestir þetta á Twitter.

Fresturinn til þess að draga nafn sitt úr nýliðavalinu rennur út í dag. Samkvæmt Givony hefur Tryggvi ekki gert það og því mun hann taka þátt í nýliðavalinu sem fer fram í Barclays Center í New York 21. júní. 

Givony telur líklegt að Tryggvi verði valinn í annarri umferð. Ef Tryggvi verður valinn verður hann þriðji Íslendingurinn til að komast á samning hjá NBA-liði. Hinir tveir eru þeir Pétur Guðmundsson, sem lék með Portland Trail Blazers, Los Angeles Lakers og San Antonio Spurs, og Jón Arnór Stefánsson, sem var samningsbundinn Dallas Mavericks. Jón spilaði þó aldrei deildarleik með liðinu.

mbl.is