Jón Axel sagður ein af vonarstjörnum Evrópu

Jón Axel Guðmundsson stóð sig mjög vel með Grindavík í …
Jón Axel Guðmundsson stóð sig mjög vel með Grindavík í úrslitarimmunni við KR í vor. mbl.is/Árni Sæberg

Grindvíkingurinn Jón Axel Guðmundsson er einn fimm ungra leikmanna í Evrópu sem körfuboltasíðan Sportando.com segir að geti náð langt á komandi árum.

Jón Axel, sem er aðeins 17 ára gamall, hefur leikið með meistaraflokki Grindavíkur síðustu tvö keppnistímabil og vakti verðskuldaða athygli fyrir framgöngu sína í vor þegar Grindavík tók silfur í úrslitakeppni Dominos-deildarinnar.

Í sumar var Jón Axel kjörinn besti leikmaður Norðurlandamóts landsliða fyrir frammistöðu sína með U18-liði Íslands sem fékk silfur. Hann skoraði 29,3 stig að meðaltali í leik á mótinu.

Í umsögn Sportando um Jón Axel segir meðal annars að hann hafi allt til brunns að bera til að ná langt. Aðrir leikmenn sem eru nefndir eru þeir Francisco Amiel frá Portúgal, Yauheni Beliankou frá Hvíta-Rússlandi, Johannes Dolven frá Noregi og Kurt Casser frá Möltu.

„Þarf að spila í betri deild en þeirri íslensku“

Umfjöllunina um Jón Axel í lauslegri þýðingu má sjá hér að neðan:

Körfuboltalandslagið er að breytast og hann er sönnun þess. Guðmundsson er íslenskur og afar efnilegur. Hann spilar oft sem leikstjórnandi en einnig sem skotbakvörður, og seinni staðan er sennilega sú sem hann mun spila út ferilinn. Hann hefur hæðina - er 195 cm - og hæfileikana til þess að leysa þessa stöðu með framúrskarandi árangri.

Varðandi sóknina þá getur hann sótt mjög vel á körfuna til að skora eða sækja villur en hann getur líka skotið frá þriggja stiga línunni. Skotin hans eru óstöðug en tæknin er góð og skotprósentan mun batna með tímanum.

Hann hefur svo margt fram að færa á öllum hliðum leiksins. Hann er frábær í fráköstum, stoðsendingum og getur varist leikmönnum sem spila sem ás, tvistur eða þristur. Hann hefur allt sem þarf til að verða mjög athyglisverður leikmaður en hann þarf að fara að spila í betri deild en þeirri íslensku.

Sjá umfjöllun Sportando.com með því að smella hér.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert