Ekki maðurinn sem á að bera uppi sóknarleik

Axel Kárason
Axel Kárason mbl.is/Ómar Óskarsson

Axel Kárason, leikmaður Tindastóls, var sáttur við 73:69-sigur sinna manna gegn Val í 2. umferð Dominos-deildar karla í körfubolta í kvöld. Valsmenn voru yfir stærstan hluta leiks en Tindastóll var mun betri aðilinn í 4. leikhluta og tryggði sér sigur. 

„Við fórum í 3-2 svæðisvörn og þá loksins náum við að smella með samskipti í vörninni og við náum að hjálpa hvor öðrum. Við byrjum að pressa meira á þá og náum að spila meiri liðsvörn. Þá komu óvæntir stolnir boltar og auðveld fráköst, það var ekki að gerast mikið fyrri hluta leiksins."

„Þó að þeir hafi ekki skorað rosalega mikið hefði vörnin okkar getað hjálpað okkur meira í sókninni. Þeir voru að skora auðveldar körfur, ég gaf t.d tvö lay up í fyrri hálfleik sem er fáránlegt. Það vantaði dýpt í sóknina og við vorum að flýta okkur of mikið."

Axel skoraði tvær mikilvægar þriggja stiga körfur í fjórða leikhluta, en hann skoraði alls 10 stig í leiknum. 

„Ég var þetta opinn og maður skýtur þegar maður er opinn. Ég er ekki maðurinn sem á að bera uppi sóknarleikinn en ég stekk í holurnar sem verða til eftir aðra. Þarna verða til tvær holur því Hester er sterkur undir körfunni og fær athygli frá mínum manni og þá er ég opinn. Þá læt ég vaða," sagði hann að lokum. 

mbl.is