Munum finna fyrir því í teignum

Hildur Björg Kjartansdóttir á æfingu landsliðsins í Laugardalshöllinni í vikunni.
Hildur Björg Kjartansdóttir á æfingu landsliðsins í Laugardalshöllinni í vikunni. mbl.is/Hari

„Ég er mjög spennt að spila með stelpunum og mæta sterkum þjóðum,“ segir Hildur Björg Kjartansdóttir sem nú getur í fyrsta sinn gefið kost á sér í undankeppni EM með íslenska landsliðinu í körfubolta.

Hildur Björg, sem er atvinnumaður á Spáni, verður í eldlínunni á laugardag þegar Ísland mætir Svartfjallalandi kl. 16 í Laugardalshöll. Síðustu ár hefur hún aðeins getað leikið með landsliðinu á Smáþjóðaleikum á sumrin, því hún hefur verið í námi í Bandaríkjunum á veturna og leikið þar í háskólaboltanum.

„Það verður gaman að fá að spila nú leik í undankeppni Evrópumóts. Vonandi fáum við áhorfendur til að koma og styðja okkur og náum að standa aðeins í þessum liðum. Við þurfum að mæta með mikla baráttu og gera eins mikið og við getum,“ segir Hildur Björg, en mbl.is ræddi við hana á æfingu í Laugardalshöll í gær.

Mjög hávaxnar og sterkar

Það kemur mikið til með að mæða á Hildi Björgu á laugardaginn enda lið Svartfjallalands skipað öflugum leikmönnum sem léku á EM í sumar.

„Já, við munum finna fyrir því inni í teignum, við sem erum þar. Þær eru mjög hávaxnar og sterkar og við þurfum að gera okkar besta til að halda þeim frá körfunni. Við förum í alla leiki til þess að vinna og það er ekkert ákveðið fyrr en að leik lýkur. Við eigum alltaf séns og undirbúum okkur með það í huga að ætla að vinna,“ segir Hildur Björg.

Langtímamarkmið íslenska landsliðsins er að komast í lokakeppni EM en hvenær það getur orðið er óvíst.

„Við erum kannski ekki með mjög reynslumikið lið en hver leikur hjálpar og við lærum mikið, sem nýtist okkur í framtíðinni,“ segir Hildur Björg.

Kann vel við sig í Madrid

„Við þekkjumst allar mjög vel og vorum saman í sumar, en ég hef ekki spilað eins mikið með yngri stelpunum og ekki heldur á móti þeim í deildinni hérna heima. Það er gaman að sjá hvað þær eru duglegar og efnilegar. Mér líst mjög vel á framtíðina. Liðið hefur bætt sig á síðustu árum og þetta lítur vel út,“ segir Hildur Björg.

Hún hefur farið afar vel af stað með Leganés í næstefstu deild Spánar í vetur, á sinni fyrstu leiktíð sem atvinnumaður eftir að háskólanáminu lauk í Bandaríkjunum:

„Við erum rétt að fara af stað núna, búnar með sex leiki, svo þetta á eftir að koma betur í ljós. Ég hef náttúrulega meiri tíma núna en áður fyrir körfuboltann, æfi með betri leikmönnum, og þá getur maður ekki annað en bætt sig. Ég fæ gott hlutverk í liðinu, það er sett pressa á mig, svo ég finn það að ég verð betri og ég hlakka bara til vetrarins. Það er gott að vera í Madrid og mér líður vel þar.“

mbl.is