„Mér leið ekkert vel“

Sverrir Þór Sverrisson ræðir við lið Keflavíkur í leiknum í …
Sverrir Þór Sverrisson ræðir við lið Keflavíkur í leiknum í kvöld. mbl.is/Hari

Sverrir Þór Sverrisson, þjálfari Keflavíkur, var að vonum kátur eftir að lið hans tryggði sér sæti í úrslitaleik Malt-bikars kvenna í körfubolta með 83:81 sigri á Snæfelli í framlengdum leik.

Keflavík hafði frumkvæðið nær allan leikinn áður en Snæfell fékk tækifæri til að stela sigrinum á lokasekúndum venjulegs leiktíma og viðurkennir Sverrir að sú tilfinning var ekki góð.

„Mér leið ekkert vel, mér fannst betra að vera í bílstjórasætinu. Við fengum nokkra sénsa til að fara með þetta upp í sjö stig en klikkum á hraðaupphlaupum og svo allt í einu erum við einu stigi yfir og þær með boltann. Sem betur fer náðum við frákastinu og svo klárar hún [Dinkins] þetta með því að hitta úr einu vítinu, þetta er bara virkilega sterkur sigur.“

„Mér fannst við alltaf líklegri til að geta stungið af en þær komu alltaf til baka og héldu þessu alltaf hnífjöfnu. Í restina er þetta bara spurning um smá heppni.“

Snæfell hefur átt erfitt uppdráttar í vetur en Sverrir segir andstæðinginn vera með hörkulið og hrósaði þeim sérstaklega.

„Þetta Snæfellslið í dag er ekki það lið sem var að spila í upphafi móts. Þær eru að tínast inn eftir barneignarleyfi og annað og þetta var þunnskipað hjá þeim á tímabili. Þetta er dúndurgott lið sem á auðvitað eitthvað inni í formi en þessar reynslustelpur stækka hópinn. Þær eru með geggjaðan útlending og Berglindi sem er einn besti íslenski leikmaðurinn, þær bera þetta uppi. Þú vinnur ekkert Snæfell nema með því að spila vel og klára 40 mínúturnar, eða 45 eins og í kvöld.“

Veikindi trufluðu undirbúning

Í vikunni bárust fréttir af því að veikindi væru innan herbúða Keflvíkinga og segir Sverrir að þótt það hafi vissulega haft áhrif, þá sé það engin afsökun til að vinna ekki þessa leiki.

„Það vantaði á æfingar og ég var sjálfur ekki á mánudagsæfingunni, lá veikur frá sunnudegi til þriðjudags. Auðvitað truflar það en ég sagði við stelpurnar að við verðum 12 í búning og það eru engar afsakanir. Við þurfum bara að mæta og vinna leikinn, burtséð frá því hvort allar voru á æfingu í vikunni eða ekki.“

Keflavík mætir nágrönnum sínum og botnliði deildarinnar í Njarðvík í úrslitaleiknum á laugardaginn kemur og leggst Suðurnesjaslagurinn vel í Sverri.

„Mjög vel, þetta verður rosalega gaman. Það er dapurt hvað það voru fáir Keflvíkingar þó að ég vilji hrósa þeim sem mættu. Núna vil ég sjá heilan her úr Keflavík og trommusveitina, ég skora á Joey Drummer og guttana sem halda þessu uppi. Ég veit að Njarðvíkingarnir munu mæta vel og ég vil gera þetta að alvöru Suðurnesjaslag, bæði á vellinum og uppi í stúku.“

Þótt Njarðvíkingar hafi tapað hverjum einasta leik í deildinni í vetur hafa þeir átt magnaðan sprett í bikarnum og segir Sverrir að sitt lið muni ekki eiga erfitt með að undirbúa sig fyrir leikinn.

„Ef það yrði erfitt, þá þyrftu mínar stelpur að taka virkilega vel [til] í kollinum á sér. Njarðvík er búið að henda þremur sterkum úrvalsdeildarliðum úr keppni, búið að fara erfiðari leið en við, búið að vinna leik í höllinni. Þær eru í þessu til að vinna og við þurfum virkilega að spila vel og vera ofan á í allri baráttu til að landa sigri á laugardaginn.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert