Haukar Íslandsmeistarar í fjórða skipti

Haukakonur fagna Íslandsmeistaratitlinum.
Haukakonur fagna Íslandsmeistaratitlinum. mbl.is/Hari

Haukar urðu Íslandsmeistarar kvenna í körfubolta í fjórða skipti með 74:70-sigri á Val í oddaleik á Ásvöllum í kvöld. Leikurinn var jafn og spennandi lengst af, en góður kafli Hauka í upphafi síðari hálfleiks lagði grunninn að sigrinum.

Það var jafnræði með liðunum í upphafi leiks, en Haukar náðu mest fimm stiga forskoti í stöðunni 14:9. Valskonur voru hins vegar fljótar að vinna það niður og var staðan 20:19, Val í vil þegar sjö sekúndur voru eftir af leikhlutanum. Í þann mund sem leikhlutinn kláraðist setti Þóra Kristín Jónsdóttir tvö víti niður og sá til þess að Haukar væru með eins stigs forystu í eftir fyrsta leikhluta, 21:20.

2. leikhluti spilaðist svipað og sá fyrsti; liðin skiptust á að skora og vera með forystu, en Valskonur voru hænuskrefi á undan stærstan hluta leikhlutans. Valskonur náðu þó aldrei meira en þriggja stiga forskoti og var staðan í hálfleik 37:35, Val í vil, í jöfnum og spennandi oddaleik. Aalyah Whiteside skoraði 16 stig fyrir Val í hálfleiknum og Elín Sóley Hrafnkelsdóttir bætti við níu. Whitney Frazer skoraði 12 stig fyrir Hauka og Helena Sverrisdóttir sjö.

Helena Sverrisdóttir með boltann í kvöld.
Helena Sverrisdóttir með boltann í kvöld. mbl.is/Hari

Haukakonur komu gríðarlega vel inn í seinni hálfleikinn og skoruðu fyrstu 14 stig hans. Af þeim skoraði Sigrún Björg Ólafsdóttir níu stig, öll úr þriggja stiga skotum, staðan var því allt í einu 49:37, Haukum í vil, eftir örfáar mínútur í seinni hálfleiknum. Valskonur gáfust ekki upp og löguðu stöðuna á næstu mínútum. Guðbjörg Sverrisdóttir skoraði góða þriggja stiga körfu, þremur mínútum fyrir lok leikhlutans og breytti stöðunni í 51:46. Valskonur minnkuðu muninn frekar og var staðan 55:52 fyrir síðasta leikhlutann.

Það var lítið skorað í upphafi 4.leikhluta, en Haukar skoruðu fjögur fyrstu stig hans og komust í 59:52 og þegar fimm mínútur eftir var staðan 61:56. Valskonur minnkuðu muninn í tvö stig er Guðbjörg Sverrisdóttir skoraði þriggja stiga körfu og var staðan 61:59, þegar rúmar þrjár mínútur voru eftir. Síðustu mínúturnar voru jafnar og spennandi, en Valskonur náðu ekki að jafna, þrátt fyrir fína baráttu og Haukar sigldu sigri í höfn.  

Haukar - Valur 74:70 

Schenkerhöllin, úrvalsdeild kvenna, 30. apríl 2018.

Gangur leiksins: 2:4, 9:7, 15:11, 19:20, 24:25, 28:27, 28:30, 35:34, 46:37, 51:43, 51:46, 55:52, 57:52, 61:56, 66:59, 74:70.

Haukar: Helena Sverrisdóttir 21/19 fráköst/10 stoðsendingar, Whitney Michelle Frazier 20/9 fráköst, Sigrún Björg Ólafsdóttir 11/5 stolnir, Dýrfinna Arnardóttir 8, Þóra Kristín Jónsdóttir 7/6 fráköst/5 stolnir, Anna Lóa Óskarsdóttir 5, Fanney Ragnarsdóttir 2.

Fráköst: 27 í vörn, 10 í sókn.

Valur: Aalyah Whiteside 26/10 fráköst, Guðbjörg Sverrisdóttir 16/6 fráköst, Elín Sóley Hrafnkelsdóttir 13/10 fráköst, Hallveig Jónsdóttir 6/4 fráköst, Dagbjört Dögg Karlsdóttir 5, Ragnheiður Benónísdóttir 2, Dagbjört Samúelsdóttir 2.

Fráköst: 27 í vörn, 6 í sókn.

Dómarar: Sigmundur Már Herbertsson, Davíð Tómas Tómasson, Ísak Ernir Kristinsson.

Whitney Frazier á ferðinni í leiknum í kvöld.
Whitney Frazier á ferðinni í leiknum í kvöld. mbl.is/Hari
Haukar 74:70 Valur opna loka
99. mín. skorar
mbl.is