Lærði handtökin í meistaraliðinu árið 2007

Brynjar Þór Björnsson og Darri Hilmarsson með Íslandsbikarinn á lofti.
Brynjar Þór Björnsson og Darri Hilmarsson með Íslandsbikarinn á lofti. mbl.is/Árni Sæberg

Darri Hilmarsson varð Íslandsmeistari með KR í meistaraflokki í körfuknattleik í sjöunda sinn á laugardagskvöldið og er þó ekki nema 31 árs.

Darri hefur verið í liði KR sem unnið hefur Íslandsmótið síðustu fimm árin en varð einnig meistari sem ungur leikmaður 2007 og 2009. Árið 2011 vann KR einnig en þá var Darri í Hamri í Hveragerði.

Darri lék sinn síðasta leik fyrir KR, í bili að minnsta kosti, þegar liðið lagði Tindastól að velli í þriðja sinn, 89:73, í úrslitarimmunni. Lét Darri ekki sitt eftir liggja og skoraði 11 stig, gaf 7 stoðsendingar og tók 5 fráköst. Hann flyst búferlum til Svíþjóðar í sumar.

„Auðvitað er skemmtilegt að kveðja félagið með þessum hætti. Ég hef verið í þessu síðustu fimm árin ásamt Brynjari og Pavel en í vetur hefur þetta verið sérstaklega mikið hark. Gengið hefur verið upp og niður en maður verður að taka því. Ef maður ætlar að vera í þessu verður maður að vera til í rússíbana. Margir höfðu afskrifað okkur um tíma af ýmsum ástæðum. Við þóttum hægir, meiddir, gamlir og búnir á því. Okkur tókst einhvern veginn að harka í gegnum þennan vetur og enda tímabilið á þessum nótum,“ sagði Darri en KR-ingar fögnuðu titlinum fyrir fullu húsi á heimavelli sínum í DHL-höllinni.

Ellefu ár eru liðin síðan Darri varð fyrst meistari en þá undir stjórn Benedikts Guðmundssonar. „Við Brynjar vorum þá ungir pungar sem komu inn á af bekknum en í liðinu voru gamlir karlar eins og Fannar Ólafsson, Pálmi Freyr Sigurgeirsson og Skarphéðinn Ingason. Þá fengum við kennsluna.“

Sjá allt viðtalið við Darra í íþróttablaði Morgunblaðsins í dag

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert